Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skipa starfshóp um afkomu eldra fólks

Mynd með færslu
 Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson
Ríkisstjórnin hefur skipað starfshóp vegna kerfisbreytinga sem miða að því að bæta afkomu eldra fólks, skapa aukinn sveigjanleika í starfslokum og gera úrbætur í húsnæðismálum. Hópurinn verður skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis sem verður í forsvari fyrir vinnuna.

Á vef Stjórnarráðsins þar sem tilkynnt er um skipan hópsins segir að verkefnið sé tilkomið vegna ákvæða í stjórnarsáttmálanum, þar sem áhersla er á að gera eldra fólki kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði, til dæmis með auknum sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera. 

Vilja hækka hámarksaldur í 75 ár

Greint var frá því í fréttum fyrr í vikunni að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, hyggist leggja fram frumvarp um að hækka hámarksaldur opinberra heilbrigðisstarfsmanna í 75 ár til samræmis við þá sem eru sjálfstætt starfandi.

Ráðherra segist eiga von á jákvæðum viðbrögðum enda eigi sveigjanleg starfslok að vera val. Markmiðið sé að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu enda ljóst að stór hluti heilbrigðisstarfsfólks muni ná sjötíu ára aldri á næstunni, sérstaklega innan stærstu stéttanna sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar.

Áform ráðherra hafa fallið í grýttan jarðveg hjá forsvarsfólki sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga, sem telja hugmyndirnar örþrifaráð og illa ígrundaðar. Það sé vanmat á stöðunni að ætla að leysa mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins með því að bjóða starfsfólki að vinna til 75 ára aldurs.

Úrbóta leitað í húsnæðismálum

Til viðbótar við að meta kosti og galla aukins sveigjanleika í starfslokum, fær starfshópurinn það verkefni að leggja til úrbætur í húsnæðismálum, meðal annars með því að meta áhrif aukins stuðnings og aukins framboðs af ódýru leiguhúsnæði fyrir eldra fólk í samstarfi við sveitarfélögin og samtök aldraðra. 

Í tilkynningu stjórnvalda segir að viðfangsefnið snúi einkum að því að bæta kjör þeirra sem lakast standa. Horfa þurfi sérstaklega til ellilífeyrisþega sem hafi íþyngjandi húsnæðiskostnað auk þeirra sem hafi eingöngu eða nánast eingöngu ellilífeyri almannatrygginga sér til framfærslu.

Þetta markmið er í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmálanum þar sem segir að almannatryggingakerfi eldra fólks verði endurmetið með það að markmiði að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum.

Í starfshópnum sitja eftirfarandi fulltrúar stjórnvalda:

  • Ásta Margrét Sigurðardóttir, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, formaður
  • Anna Borgþórsdóttir Olsen, fjármála- og efnahagsráðuneyti
  • Sigrún Dögg Kvaran, innviðaráðuneyti

Hópnum er ætlað að skila tímasettum tillögum til hlutaðeigandi ráðherra fyrir 15. desember næstkomandi.