Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hrun mýstofnsins hefur áhrif á fuglalíf við Mývatn

15.07.2022 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Mýið við Mývatn er nánast horfið og þó margir fagni því eflaust, getur það haft alvarlegar afleiðingar á fuglalíf á svæðinu. Þar sem áður komust upp um hundrað þúsund fuglsungar, hafa nú bara komist upp tæplega þúsund.

Þeir ungar sem ekki eru yfirgefnir, lifa bara í nokkra daga

Skilyrði fuglalífs við Mývatn fer að miklu leyti eftir magni af mýi en nú er komin upp sú staða að lítið sem ekkert finnst af mýi, sem Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, segir geta haft alvarlegar afleiðingar: „Það komast engir ungar upp á vatninu. Það eru tuttugu þúsund pör af öndum og það eru mjög fáar sem eru að koma upp ungum. En þær eru mikið búnar að afrækja hreiðrin og hætta við varpið. Hafa farið af eggjunum, skilið þau eftir í hreiðrunum og svo þessir ungar, sem koma upp, lifa ekki nema í nokkra daga.

Tíuþúsundföld fækkun á mýi

Hann segir að í eðlilegu árferði geti komið upp allt að hundrað þúsund ungar við Mývatn en nú eru innan við þúsund ungar á svæðinu. Svipaða sögu megi segja af mýinu, þar sem fækkun er orðin tíuþúsundföld. Mýleysið verður vegna sveiflna í Mývatni þar sem mýið étur upp eigin næringu á vatnsbotninum. „Það klárast upp maturinn á vatnsbotninum og mýstofninn hrynur og síðan koma fiskar og klára þetta litla sem eftir er af mýleifum á botninum og þá kemur ekkert mý upp úr vatninu, það er ekkert mý eftir,“ segir Árni.

Gerist á sjö til níu ára fresti

Þessar sveiflur á mýstofninum verða á sjö til níu ára fresti. Nú eru liðin um átta ár frá því að þetta kom upp síðast. „Þetta kemur niður á fuglastofninum árið eftir og næstu tvö, þrjú árin. Þetta heggur skarð í stofninn, hann endurnýjar sig ekki,“ segir Árni.