Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fiskafli í júní 35 þúsund tonn - aflaverðmæti aukast

15.07.2022 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Heildarafli í júní var 35.237 tonn sem er 14 þúsund tonnum minni afli en í júní á síðasta ári. Heildarafli á ársgrundvelli er 1,5 milljónir tonna, sem er um 40% aukning aflans.

Þrátt fyrir umtalsvert minni heildarafla í júnímánuði aukast útflutningsverðmæti aflans. Endanlegar tölur um verðmæti aflans í júní liggja þó ekki fyrir, en örar verðhækkanir hafa verið á fiskmörkuðum á fyrstu mánuðum ársins 2022. 

Á tólf mánaða tímabili frá júlí 2021 til júní 2022 var heildaraflinn rúmlega 1,5 milljónir tonna, tæplega 40% meira en landað var á sama tímabili ári fyrr.

Verðhækkanir á mörkuðum

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Hagstofu Íslands, en þar segir að þessar öru verðhækkanir geri það að verkum að vísitala útflutningsverðmæta gefi ekki rétta mynd af þróun aflaverðmætis. Endanlegar tölur um útflutningsverðmæti aflans í júní liggja fyrir að tveimur mánuðum liðnum.

Vísitalan er því ekki birt að sinni en þó ljóst að útflutningsverðmæti aflans eykst á milli ára, sé miðað við tölur um aflaverðmæti frá því í apríl síðastliðnum.

Fram kemur að aflaverðmæti sjávarafurða á föstu verðlagi sé ekki birt þar sem þeirri magnvísitölu er ætlað að meta áætlað verðmæti aflans í samanburði við fyrra ár. Við þessa útreikninga er stuðst við meðalverð fisktegunda frá síðasta fiskveiðiári.