Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrír fengið bætur vegna covid-bólusetningar hérlendis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson, Vi - RÚV
Þrír hafa fengið bætur vegna líkamlegs tjóns eftir bólusetningu gegn kórónuveirunni hérlendis. Alls hafa 40 sótt um bætur en tveimur umsóknum hefur nú þegar verið hafnað, hinar eru enn í vinnslu hjá Sjúkratryggingum Íslands sem sjá um að greiða bæturnar út. Íslenska ríkið er ábyrgt fyrir hvers konar tjóni sem fólk verður fyrir í kjölfar bólusetninga.

Ingibjörg K. Þorsteinsdóttir, sviðsstjóri hjá Sjúkratryggingum Íslands segir að það taki tíma að vinna úr umsóknunum, rannsaka þurfi hvert og eitt mál fyrir sig og fylgjast með þeim aukaverkunum sem fólk hefur orðið fyrir. Meta þurfi hvort tjónið sé varanlegt eða hvort um er að ræða tímabundnar aukaverkanir sem jafni sig.

Tekur langan tíma að ákvarða hvort fólk sé bótaskylt

Sjúkratryggingar hafa leitað til sérfræðinga á Landspítalanum til að meta líkurnar á því að skaði sem fólk hefur orðið fyrir sé afleiðing af bólusetningu og hvort hann sé alvarlegur. Ef svo er metið að fólk hafi hlotið varanlegan skaða af þá á fólk rétt á bótum.
Ingibjörg segir að búið sé að afgreiða fimm umsóknir eins og er en enn eigi eftir að rannsaka um þrjátíu og fimm.  

Í gær var greint frá því að yfir þúsund Danir hafi sótt um bólusetningabætur. Þar í landi hefur um helmingi umsókna verið hafnað en þrjátíu og tvær verið samþykktar. Um er að ræða svipaðan fjölda og hérlendis miðað við höfðatölu. 

Lyfjastofnun Íslands hafa borist 6.178 tilkynningar um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn covid, þar af þrjú hundruð alvarlegar.