Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ákæra gefin út í máli barns sem ekki mátti rjúfa þungun

14.07.2022 - 05:26
FILE - Demonstrators march and gather near the state capitol following the Supreme Court's decision to overturn Roe v. Wade, Friday, June 24, 2022, in Austin, Texas.  On Friday, July 8, The Associated Press reported on stories circulating online incorrectly claiming herbs including pennyroyal, mugwort and parsley are viable alternatives to abortion. Experts strongly warn against trying to self-manage an abortion using any herbs, as many of these alleged remedies not only do not work but are dangerous or even deadly.  (AP Photo/Eric Gay, File)
 Mynd: AP - RÚV
Lögreglan í Ohio í Bandaríkjunum hefur ákært 27 ára mann, fyrir að nauðga tíu ára stúlku. Málið hefur vakið mikla athygli, þar sem stúlkunni var meinað að gangast undir þungunarrof í heimaríki sínu.

Var komin meira en sex vikur á leið

Eftir að hæstiréttur í Bandaríkjunum sneri við dómi í máli Roe gegn Wade, færðist það í hendur hvers og eins ríkis að setja lög um réttinn til þungunarrofs. Í Ohio er þungunarrof nú ólöglegt eftir sjöttu viku meðgöngu og þurfti því að flytja barnið til nágrannaríkisins Indiana til þess að binda enda á meðgönguna.

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, sagði málið það öfgafyllsta sem hann gæti hugsað sér, í ávarpi fyrr í mánuðinum.

 „Tíu ára, nauðgað, komin sex vikur á leið. Nú þegar í áfalli og neydd til að ferðast í annað ríki. Ímyndið ykkur að vera þessi unga stúlka“ sagði Biden.

Bandaríkjaforseta var heitt í hamsi í ræðu sinni, þar sem hann bað áheyrendur að setja sig í spor barnsins. Það hafi þegar orðið fyrir þungu áfalli, en hafi líka neyðst til þess að ferðast langa leið til þess að komast hjá því að fæða barn nauðgara síns.

Repúblikanar töldu málið vera uppspuna

Eftir ræðu Bidens voru margir sem efuðust um að málið væri raunverulegt, eða fullyrtu jafnvel það væri búið til í þeim tilgangi að kasta rýrð á lagabreytingar um þungunarrof í landinu. Þeirra á meðal var þingmaður Repúblikana í Ohio, Jim Jordan, sem sagði söguna vera „enn eina lygina“.

Lögreglan í Ohio hefur hins vegar staðfest að málið sé á þeirra borði, og að ákærði, Gershon Fuentes, hafi mætt fyrir dóm í ríkinu í gær.