Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Landslag efnahagsmála gjörbreytt með ferðaþjónustu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Íslenska ferðaþjónustan skapar langmestar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið, staðan er orðin jafngóð og fyrir faraldur og horfurnar bjartar. Þetta segir ráðherra ferðamála. Hún segir landslag efnahagsmála gjörbreytt með tilkomu ferðaþjónustunnar.

Verkefnastjórn sem skoðaði fjölsótta ferðamannastaði þar sem öryggi fólks er ógnað umfram aðra, við vissar kringumstæður, skilaði menningar- og viðskiptaráðherra niðurstöðum sínum fyrir helgi.

Ráðherra telur afar brýnt að skilgreina áhættusvæðin í samstarfi við alla hlutaðeigandi enda ferðaþjónustan langmikilvægasta atvinnugreinin hér á landi.

Lilja segir landslag efnahagsmála gjörbreytt með tilkomu ferðaþjónustunnar

„Um leið og ferðaþjónustan fer að skapa allan þennan gjaldeyri þá er gjörbreytt staða er varðar gjaldeyrisforða og allt í einu erum við orðin þjóð sem á talsverðan gjaldeyrisforða í stað þess eins og frá fyrri tíð þá fengum við hann oft að láni erlendis frá,“ segir Lilja.

Kórónaveirufaraldurinn var áfall fyrir flesta þætti samfélagsins og atvinnulífs en kom afar hart niður á ferðaþjónustunni. Nú horfir hins vegar til betri vegar og ráðherra segir bjarta tíma framundan.

„Íslenska ferðaþjónustan hún skapar mestar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið eða um fjörutíu prósent og ef við segjum hvað þetta er í tölum þá eru þetta fjögurhundruð og sextíu milljarðar samanborið við sjávarútveginn sem er að koma með um 260 milljarða,“ segir Lilja.

Aðspurð segir hún að sér sýnist landið vera búið að jafna sig á faraldrinum. Það sé mikil eftirspurn eftir að koma og heimsækja landið og horfurnar séu áfram bjartar.