Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þúsundir berjast við yfir 250 skógarelda í Portúgal

12.07.2022 - 05:31
Erlent · Hamfarir · Náttúra · hitabylgja · Portúgal · Skógareldar · Spánn · Þurrkar · Evrópa · Veður
epa10064281 Firefighter battles a fire in Cruzinha, Alvaiazere, Portugal, 10 July 2022. The fire that has been burning in forest stands since 07 July in Cumeada, Ourem, remains active and has already overtaken the municipalities of Alvaiazere and Ferreira do Zezere, where it remains active and was fought by almost 700 operatives, assisted by 222 vehicles and seven airborne means.  EPA-EFE/PAULO CUNHA
 Mynd: EPA-EFE - LUSA
Fleiri þúsund slökkviliðsmenn berjast enn við mikla skógarelda sem loga á fleiri en 250 stöðum í Portúgal. Heimamenn á hamfarasvæðunum, fjölmiðlar, slökkviliðs- og stjórnmálamenn eru sagðir lýsa ástandinu sem „hreinu helvíti“. Mikil hitabylgja ríður yfir Íberíuskagann, önnur hitabylgjan á miklu þurrkasumri. Spáð er áframhaldandi hita og þurrki næstu daga.

 

Ekki er vitað til þess að manntjón hafi orðið í eldunum, en minnst 40 manns, bæði slökkviliðsmenn og almennir borgarar, hafa þurft að leita aðhlynningar vegna reykeitrunar, bruna eða hvorutveggja.

Heitast brenna eldarnir í grennd við bæina Orém og Pombal um miðbik Portúgals og umhverfis þorpið Carrazeda, í landinu norðaustanverðu. Um 1.500 slökkviliðsmenn berjast við eldana á þessum þremur stöðum.

Tugir sérútbúinna flugvéla og þyrlna eru notaðir við slökkvistörfin, þar á meðal nokkrar vélar frá nágrannaríkinu Spáni. Þar geisar hitabylgjan af jafnvel enn meiri ákefð en í Portúgal en gróðureldar hafa til þessa ekki valdið jafnmiklum usla þar.