Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Erfitt að fá kennara í haust vegna álags í faraldrinum

12.07.2022 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Álag á starfsfólk skóla og aðrar starfsstéttir sem voru í framlínu heimsfaraldursins var viðvarandi og vaxandi, eftir því sem faraldurinn dróst á langinn, segir Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands. Hluti þeirra sem sinntu störfum þar sem álagið var mest þurfti frá að hverfa tímabundið og leita sér endurhæfingar hjá starfsendurhæfingu VIRK, sem starfrækt er af aðilum vinnumarkaðarins, sveitarfélögum og ríkissjóði.

Þjónustu- og afgreiðslufólk, kennarar og heilbrigðisstarfsfólk eru þær starfsgreinar sem mest nýttu sér endurhæfingu VIRK á 15 mánaða tímabili frá janúar 2021 til loka mars 2022. Alls nutu 452 þeirra sem störfuðu við kennslu og uppeldisstörf þjónustu VIRK.

Kennarar undir miklu álagi

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir í samtali við fréttastofu að kennarar hafi verið undir miklu álagi síðustu tvö ár, enda samkomubann og -takmarkanir viðvarandi í margvíslegu formi í faraldrinum. 

Starfsfólk skóla hafi þurft að laga sig að breyttu umhverfi auk þess sem fjarkennsla bættist við staðbundna kennslu. Kennarar hafi tekið á sig auknar starfsskyldur og fengið ný verkefni í fangið sem hafi haft veruleg áhrif á starfsaðstæður og umhverfi. 

Auknar kröfur á starfsfólk skóla

Magnús segir að samhliða hafi kröfur á starfsfólk skóla aukist. Það eitt og sér hafi aukið álagið og orðið til þess að nokkur fjöldi hafi þurft frá að hverfa tímabundið eða leitað í önnur störf þar sem álag var minna og starfsaðstæður hagfelldari.

Kennarar hafi ekki notið skjóls líkt og sumar aðrar starfsstéttir sem hafi getað sinnt vinnu heima við. Þeir hafi áfram sinnt störfum sínum á vinnustöðunum, í skólum landsins. Þetta hafi aukið álag við kennslu og daglegan undirbúning hennar.

„Það sem covid gerði var það að koma niður á starfsaðstæðum sem kennarar eru vanir að vinna við, óháð skólastigum. Við vorum að breyta frá degi til dags og jafnvel innan hvers dags okkar vinnuaðstæðum og þeim vinnuaðferðum sem við erum vön að nýta. Og það er auðvitað eitthvað sem eykur álag á fólk,“ segir Magnús.

 

 

Tæp þrjú þúsund leituðu til VIRK

Í svari Guðmundar Inga Guðbrandssonar félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur þingmanns, um skiptingu þeirra sem leituðu til VIRK eftir starfsstéttum, kemur fram að alls hafi 2.739 nýtt sér þjónustuna á tímabilinu eða allt að 235 í hverjum mánuði.

Auk 452 sem starfa við kennslu og uppeldisstörf, komu 562 úr afgreiðslu verslana, þjónustu og útkeyrslu á vörum og 446 úr heilbrigðis- og félagsþjónustu. Yfir helmingur allra sem leituðu til VIRK komu úr þessum þremur starfsgreinum, eða 53%.

Þá komu 297 úr sérfræðistörfum innan stjórnsýslunnar eða fjármálastofnana og úr upplýsingatæknigeiranum. Hundrað áttatíu og átta komu úr byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð og viðhaldi fasteigna, 149 úr fiskvinnslu, landbúnaði og matvælaframleiðslu og 130 úr ferðaþjónustu og farþegaflutningum. Alls komu 515 úr öðrum greinum atvinnulífsins.

Starfsaðstæður hafi versnað

Magnús Þór segir að í faraldrinum hafi starfsaðstæðum kennara og annars starfsfólks skóla hrakað og kennarar átt erfiðara með að ljúka daglegum verkefnum.

„Kjarni vinnu kennarans er að vinna með verkefni sem við erum að markmiðssetja. Þetta geta verið ólíkir þættir varðandi starfsaðstæður, það geta verið þessir augljósu ytri þættir sem eru húsnæði og umhverfi því tengt. Námsgögn eða námsbækur eða annað sem tengist því hvernig við vinnum með þeim börnum sem við erum að vinna með, alveg frá eins árs inni í leikskólunum og upp í 18, 19 og 20 ára í framhaldsskólum,“ segir Magnús Þór.

Hann segir að kröfur sem gerðar séu til starfsfólks skóla séu samhliða sífellt að aukast, það eitt og sér auki álagið. Staðan sé grafalvarleg og óljóst hvort hægt verði að manna allar stöður í skólum landsins í haust.

„Það sem við heyrum af vettvangi er að það sé búið að vera erfiðara að manna skólana núna í vor heldur hefur verið undanfarin ár. Og það sé erfiðara að fá kennara til starfa í haust en oft áður. Það er enn þá bara tilfinning og þessar tölur breytast oft þegar er komið fram í ágúst og skólarnir að fara að byrja. En það er eitthvað sem við hjá Kennarasambandinu munum fylgjast mjög grannt með,“ segir Magnús.