Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Brennandi hiti á Íberíuskaga

12.07.2022 - 16:01
Erlent · Bretland · Frakkland · hitabylgja · Portúgal · Spánn · Evrópa · Veður
epa10066764 A man carries a sheep on his back during the fire at Boa Vista, Portugal, 12 July 2022. The fire forced shutting down the highway nr 1 in both directions.  EPA-EFE/PAULO CUNHA
 Mynd: EPA-EFE - Lusa
Hiti er kominn yfir fjörutíu stig víðs vegar um Spán og Portúgal. Hann er mestur á suðurhluta Íberíuskaga en færist norður á bóginn. Gróðureldar loga víða á skaganum. Búist er við að hiti nái allt að fjörutíu stigum á nokkrum stöðum í Frakklandi, og í Bretlandi er útlit fyrir að hitamet falli um næstu helgi.

Clare Nullis, talsmaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar í Genf, sagði í dag að allt útlit væri fyrir að ástandið ætti eftir að versna. Jörð væri skraufaþurr vegna hitans. Jöklar í Alpafjöllum bráðnuðu og ástandið væri ekki síst alvarlegt í ljósi þess að enn eru margar vikur eftir af sumri. 

Þrjú hundruð slökkviliðsmenn hafa í dag barist við gróðurelda í héraðinu Extremadúra í suðausturhluta Spánar. Þeir nota sautján þyrlur og flugvélar við slökkvistarfið. Tuttugu og fimm ferkílómetrar gróðurlendis hafa orðið eldunum að bráð. Gert er ráð fyrir að hitinn fari í 44 stig í nánd við borgina Sevilla í vikunni. Fólk er varað við að vera á ferli utan dyra. Í Portúgal berjast slökkviliðsmenn einnig við gróðurelda. Þeim tókst að laga ástandið í gærkvöld, en eldarnir blossuðu upp að nýju í dag. 

Hiti náði 30 stigum víðs vegar um Frakkland í gær og fer í allt að 39 stig á nokkrum stöðum í dag. Elisabeth Borne forsætisráðherra bað í dag alla ráðherra ríkisstjórnarinnar að vera viðbúna hinu versta þar sem útlit er fyrir að hitabylgjan vari í tíu daga. Í að minnsta kosti tuttugu bæjum og borgum hefur flugeldasýningum verið aflýst á þjóðhátíðardaginn 14. júlí vegna eldhættu. 

Í Bretlandi varar veðurstofan við yfirvofandi hitabylgju. Útlit er fyrir að hún nái hámarki á sunnudag. Þá eru talsverðar líkur taldar á að hitametið frá í júlí 2019 falli. Þá náði hitinn 38,7 stigum í grasgarðinum í Cambridge.