Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Afkomendur þriggja forseta kepptu í fótboltaleik

Mynd með færslu
 Mynd: Grótta - Twitter
Símamótið fór fram síðustu helgi þar sem um þrjú þúsund keppendur í 5., 6. og 7. flokki kvenna tóku þátt. Í leik Gróttu og Álftaness á laugardeginum spiluðu afkomendur þriggja forseta Íslands.

Það voru þær Fanney Petra Karlsdóttir, barnabarn Ólafs Ragnars Grímssonar, fimmta forseta Íslands, og Arney Día Eldjárn, barnabarnabarn Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta Íslands, í liði Gróttu sem kepptu á móti Eddu Margréti Guðnadóttur, eins og föðurnafnið gefur til kynna, dóttur Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands, í liði Álftaness.

Jórunn María Þorsteinsdóttir, þjálfari 6. flokks kvenna í Gróttu, segist hafa áttað sig á þessu eftir leikinn.

„Ég sendi það á foreldrana til gamans og þá sendir Tinna, dóttir Ólafs Ragnars, mér þessa mynd og segir að þau hafi líka verið meðvituð um þetta og þess vegna skellt í þessa mynd,“ segir Jórunn í samtali við fréttastofu.

Leikurinn fór 3:1 fyrir Gróttu en allar stelpurnar stóðu sig með prýði. Fyrir ofan má sjá mynd af stelpunum saman að leiknum loknum.

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV