Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þetta er byrjunin á samtalinu

Mynd: Iona Sjöfn / Aðsend

Þetta er byrjunin á samtalinu

11.07.2022 - 10:05

Höfundar

„Ég held að mjög margt fólk sé góðviljað og áhugasamt um að lifa í fjölbreyttu og jöfnu samfélagi en viti ekki alveg hvernig það eigi að beita sér,“ segir Elinóra Guðmundsdóttir, yfirritstjóri bókarinnar Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

Til stendur að gefa út bókina Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, til heiðurs framlags kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags. Auk þess er bókinni ætlað að auka skilning á stöðu þessara kvenna sem mæta tvöfaldri mismunum vegna kyns og því að þær séu innflytjendur.  

Elinóra Guðmundsdóttir, yfirritstjóri bókarinnar, ræddi við Ingvar Þór Björnsson og Rúnar Róbertsson í Morgunútvarpinu á Rás 2 um verkefnið. 

Hafði lengi langað að gefa út slíka bók 

Hennar rödd eru félagasamtök sem starfa með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og fræðslu um málefni kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Hugmyndina að bókinni segir Elinóra hafa kviknað árið 2019 en Chanel Björk Sturludóttir, ein stofnenda samtakanna, hafði lengi langað til að gera slíka bók. Ekki hafði þó verið nægilega mikill áhugi útgefanda á þessum málefnum til að hægt væri að klára verkefnið. 

Móðir Chanel Bjarkar, Letetia B. Jonsson, er af jamaískum og breskum uppruna og tók virkan þátt í samfélagi kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Þar kynntist hún fjölda frambærilegra kvenna sem höfðu þurft að glíma við sömu hindranirnar hvað varðar aðlögun að menningu og tungumáli landsins. Þeir erfiðleikar sem bæði Letetia og Chanel Björk hafa gengið í gegnum sökum þessa er innblástur verkefnisins og hvatti hana til að stofna samtökin ásamt Elínborgu Kolbeinsdóttur sem er menntuð í félagsfræði og mannréttindum. 

Bárust fjöldi tilnefninga  

„Við báðum almenning að tilnefna konur af erlendum uppruna sem höfðu auðgað samfélagið sitt á einhvern hátt,“ segir Elinóra og margar tilnefningar bárust. Búið er að taka viðtal við 36 konur um allt land og skrásetning frásagna þeirra hefur tekið þrjú ár.  

Of snemmt er að segja til um hvort rauður þráður liggi í gegnum allar sögurnar en Elinóra segir að helsta þemað sé hve fjölbreyttur hópurinn sé. „Og við tölum samt um hann sem einn hóp.“ 

Hjálpa fólki að komast til móts við fjölmenningu

Elinóra segir að undanfarið hafi orðið mikil vitundarvakning um fólk af erlendum uppruna en með bókinni vilji þau brúa bil sem getur myndast. „Ég held að mjög margt fólk sé góðviljað og áhugasamt um að lifa í fjölbreyttu og jöfnu samfélagi en viti ekki alveg hvernig það eigi að beita sér,“ segir hún. Ef til vill þekkir fólk ekki til neins af erlendum uppruna og viti hreinlega ekki hvernig það eigi að snúa sér í því að komast til móts við fjölmenningu.  

„Okkur finnst þetta kannski bara vera byrjunin á þessu samtali, að hjálpa fólki að skilja annað fólk sem fer í gegnum lífið og samfélagið á öðruvísi hátt en þú.“ 

Fordómarnir krauma alltaf undir niðri 

„Ég held að það sé mikilvægt að við séum alltaf á varðbergi gagnvart fordómum og hatursorðræðu og berjumst gegn því með upplýsingum og samtali,“ segir Elinóra þegar talið berst til aukinna fordóma í garð hinsegin fólks og hvort blikur séu á lofti um að slíkt hið sama sé á teningnum þegar kemur að fólki af erlendum uppruna.  

„Fordómar koma alltaf í bylgjum í sögulegu samhengi og fer ótrúlega mikið eftir því hvað er að gerast í heiminum,“ segir hún. „En þeir eru alltaf til staðar og krauma alltaf undir niðri.“  

Krafa gerð um óaðfinnanlega íslensku 

Tungumálið getur verið þrándur í götu fjölmenningar og Elinóra segir íslenska tungu vera eina helstu aðgengishindrunina inn í samfélagið. „Það er krafan á óaðfinnanlega íslensku og að hún megi ekki hafa hreim og þú verðir að geta skrifað og lesið og talað óaðfinnanlega,“ segir hún. „Við eigum það líka til að horfa á fólk sem hefur ekki fullkomið vald á tungumálinu sem einfalt fólk eða ekki fyndið.“ Viðkomandi þurfi að hafa gott vald á tungumálinu til að skilja brandara og geta sett sig fram sem heila persónu. „Þannig þetta er aðgengishindrun á mjög mörgum sviðum, bæði á atvinnu- og félagssviðum.“ 

Einnig eru konur af erlendum uppruna gjarnan útsettari fyrir kynbundnu ofbeldi, atvinnuleysi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu er ábótavant vegna skorts á túlkaþjónustu og upplýsingagjöf.  

Getum lært af nágrannaþjóðum 

Elinóra hefur verið búsett í Kaupmannahöfn undanfarin fjögur ár og hefur því reynt á eigin skinni að vera af erlendum uppruna. „Það veitir ákveðna innsýn að hafa upplifað einhverjar af þessum hindrunum, eins og tungumálahindrunina,“ segir hún. Almennt hefur henni verið tekið mjög vel enda hefur fjölmenning meira áberandi í Danmörku. „Það er áhugavert að bera þessi tvö lönd saman þegar kemur að þessum málum og við ættum að læra af þeim.“ 

Bókin sjálf er á lokametrunum og útgáfu er að vænta í nóvember ef vel tekst til að fjármagna verkefnið. Safnað er fyrir prentkostnaði í gegnum Carolina fund þar sem hægt er að styrkja verkefnið.  

Rætt var við Elinóru Guðmundsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vímuefnanotkun, rasismi og kynbundið ofbeldi á Íslandi