
Telur að hvalveiðar leggist af vegna nýrra reglna
Sigursteinn Másson, ráðgjafi Alþjóðadýravelferðarsjóðsins og Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, segir að best hefði verið ef dýralæknar kæmu strax um borð í hvalveiðiskipin, líkt og matvælaráðherra áformar næsta sumar.
Starf eins úr áhöfn verði eingöngu að mynda
„En þetta er kárlega mjög mikilvægt skref í rétta átt. Það er mjög mikilvægt að þarna er gerð krafa um það að myndataka fari fram allan tímann, á meðan á veiðunum stendur og alveg þar til hvalurinn hefur verið dreginn inn í hvalstöðina. Þannig að þarna verður einn úr áhöfninni bara í þessu, að gera þetta. Það er þá mikilvægt að Matvælastofnun sjái til þess að þetta verði gert sómasamlega,“ segir Sigursteinn.
Sigursteinn gagnrýnir harðlega veiðar á langreyði.
„Það er eiginlega hvert sem litið er tap á þessum veiðum og annað. Hvert sem litið er, þá er þetta í rauninni algjörlega órökrétt. Og ég treysti því og trúi að þetta muni leiða til þess að menn sjái að sér og hætti þessu. Enda hefur það komið í ljós við fyrri skoðanir sem hafa verið gerðar af Norðmönnum að það hefur tekið allt upp í 25 mínútur fyrir langreyði að drepast, eftir að sprengjuskutull með rúmlega fjögurra kílóa dýnamíthleðslu lenti í dýrinu. Þetta er náttúrulega algjörlega óviðundandi,“ segir Sigursteinn.
Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir segir engar vísbendingar um að hér á landi sé farið á svig við lög um dýravelferð með hvaladrápi. Hins vegar hafi fram til þessa verið erfitt að sannreyna að farið sé að lögum. Nýju reglurnar séu til bóta.