Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Erfitt hefur verið að tryggja dýravelferð við hvaladráp

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umfangsmiklar breytingar verða á hvalveiðum því matvælaráðherra hyggst krefjast þess að dýravelferðarfulltrúi verði um borð í hvalveiðiskipum sem myndar veiðar og dráp á hvölum. Yfirdýralæknir segir að fram til þessa hafi verið erfitt að sannreyna að dýravelferðar sé gætt við dráp á hvölum.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra birti í morgun drög að breytingu á reglugerð um hvalveiðar. 

„Þar sem ég er að leggja til þá skyldu að einn úr áhöfn hvalveiðiskips verði tilnefndur dýravelferðarfulltrúi og að sá sæki námskeið sem Matvælastofnun samþykkir um velferð hvala og hvaða atriði þurfi að hafa í huga þegar þeir eru aflífaðir. Honum beri að taka upp á myndband allt ferlið frá því veiðin hefst þangað til hvalurinn er kominn upp úr bátnum. Þessum myndböndum verði síðan skilað til eftirlitsdýralækna MAST. Þannig fáum við betri yfirsýn yfir það hvernig þetta gengur fyrir sig og hvort lög um dýravelferð séu uppfyllt. Næsta sumar hyggst ég ganga lengra og þá verði eftirlitsdýralæknar um borð í hvalveiðiskipunum sem fylgist með þessu. Þannig verði gerðar sömu kröfur til þeirra sem veiða hvali og þeirra sem slátra kúm eða kindum, að dauðdaginn sé eins skjótur og sársaukalaus og hægt er,“ sagði Svandís í Morgunútvarpi Rásar 2.

Gæti orðið til bóta

Frestur til að skila inn umsögn um breytinguna er tvær vikur. Reglugerðin tekur gildi þegar unnið hefur verið úr umsögnum. Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni líst vel á breytinguna. 

„Bara ágætlega. Þetta gæti orðið til bóta,“ segir Sigurborg.

Myndböndin sem tekin verða af veiðunum berast til eftirlitsdýralækna MAST sem eru viðstaddir þegar hvalir eru skornir eftir að þeir eru dregnir á land. Sami dýralæknir skoðar skotsárið á dýrinu til að meta hvort það hafi verið drepið á skjótan hátt. Ráðherra segir að ekki sé vitað með vissu hvort dýravelferðar sé gætt við dráp á hvölum.   

„Ja, það hefur verið erfitt að sannreyna það. Það sem er verið að leggja til með þessari reglugerðarbreytingu er að hafa hliðstætt fyrirkomulag og er í sláturhúsum,“ segir Sigurborg.

Finnst þér eðlilegt að það sé hliðstætt fyrirkomulag?

„Ja, mér finnst rétt að prófa það. Það hefur verið gagnrýnt að við höfum ekki getað fylgst með eða sannreynt aflífun hvalanna við veiðar. Með þessu fyrirkomulagi ætti það að vera hægt,“ segir Sigurborg.