Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Yfir þúsund ára gamlir barnavettlingar aldursgreindir

06.07.2022 - 09:44
Mynd: Þjóðminjasafn Íslands / Þjóðminjasafn Íslands
Staðfest hefur verið að vettlingar í vörslu Þjóðminjasafns Íslands séu meira en þúsund ára gamlir. Það gerir þá einstaka á heimsvísu. Anna Leif Auðardóttir Elídóttir safnkennari sýndi fréttamanni vettlingana og sagði sögu þeirra.

„Það sem ég tengi kannski svolítið við er að þegar ég var stelpa þá voru bönd á milli vettlinganna sem þræddust inn í úlpuermarnar svo að ég myndi ekki týna vettlingunum. Og það er einmitt á þessum vettlingum líka,“ segir Anna Leif.

Vettlingarnir hafa verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1960 þegar þeir fundust djúpt í jörðu. „Þeir fundust á Heynesi rétt fyrir utan Akranes, rétt hjá þar sem maður kemur upp úr göngunum. Það var verið að handmoka fyrir grunni að húsi þar. Um það bil tvo metra ofan í jörðina þannig að viðkomandi sem fann þá, hann Halldór á Heynesi, vildi meina að þeir væru frá landnámstíð. Og það sannast hér með.“

Kannski barn sem kom á knerri til Íslands

Kristján Eldjárn, sem þá var þjóðminjavörður, tók við vettlingunum og taldi líka að þeir væru frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þetta hefur þó ekki verið hægt að sanna fyrr en nú. Sýni voru tekin í vor úr vettlingunum og snúrunni sem tengir þá saman og send utan til aldursgreiningar. Niðurstöður beggja sýna staðfesta að vettlingarnir eru frá tíundu öld og snúran er upprunaleg. Anna Leif segir að þetta þýði að þeir gætu hafa komið til landsins með knerri á sínum tíma „Ef þeir eru frá því fyrir 900, frá 9. eða 10. öld, þá geta þeir verið rúmlega 1100 ára gamlir. Þannig að þetta var kannski barn sem að kom á knerri til Íslands á víkingaöld. Það er bara ótrúlegt og magnað að hugsa til þess.“ 

Vettlingarnir eru einstakir á heimsvísu sökum þess hvar þeir fundust og hversu heillegir þeir eru. Textíll varðveitist almennt illa í jörðu á Íslandi. „Það finnast nefnilega stundum hér, norðan Atlantshafs, bútar af textíl. En það sem er merkilegt við þessa vettlinga er að þetta eru heilar flíkur, þetta eru heilir vettlingar. Það er það sem er svona merkilegt,“ segir Anna Leif.

Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Hlín Magnúsdóttir - RÚV
Eftirlíkingin

Hægt að máta eftirlíkingu

Anna Leif saumaði eftirlíkingu af vettlingunum sem gestir Þjóðminjasafnsins mega snerta, skoða og máta. „Af því að ég starfa nú sem safnkennari hér þá er ég búin að sauma þá líka í svona eftirlíkingu af vaðmáli til þess að leyfa krökkum að máta þá. Þetta er náttúrulega svona lopaefni.“

Hún segir auðvelt að láta hugann reika um uppruna vettlinganna. „Mér finnst líklegt að þeir hafi verið saumaðir úr einhverjum svona buxum sem voru orðnar götóttar á hnjánum eða efni sem var einhver afgangur af því að þetta eru náttúrulega bara litlir bútar. Þú ert ekki að klippa inn úr miðju vaðmáli til þess að búa til svona litla vettlinga. Þannig að þá sé ég fyrir mér að þeir hafi verið svona einhver afgangur, líka af því að þeir eru ekki báðir alveg eins, saumarnir eru aðeins ólíkir á þeim þannig að það er líklegt að þeir hafi verið saumaðir úr einhverjum bútum sem hafa fallið til.“

Hægt er að hlusta á viðtal við Önnu Leif Auðardóttur Elídóttur safnkennara í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Hlín Magnúsdóttir - RÚV
Vettlingarnir í sýningarskúffu á Þjóðminjasafninu.
astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir