„Þetta er náttúrlega bara geðveiki"

Mynd: Jóhannes Jónsson / Sumarlandinn/RÚV

„Þetta er náttúrlega bara geðveiki"

06.07.2022 - 17:48

Höfundar

Fimmtudagar eru ferjudagar á Seyðisfirði og nágrenni. Þá kemur ferjan Norræna með skara af erlendum ferðamönnum sem leggja undir sig bæinn áður en þeir hefja hringferðir um landið allt. Bæjarbúar á Seyðisfirði og Egilsstöðum forðast matvörubúðir á ferjudögum til að sleppa við hamaganginn. 

„Þetta er náttúrulega bara geðveiki, frá því að við opnum,” segir Gróa Rún Hlynsdóttir, starfsmaður Nettó á Egilsstöðum, í Sumarlandanum. „Við opnum núna níu á ferjudögum,” bætir hún við eins og til marks um hve orðið ferjudagur er almennt notað.

Á ferjudögum mætir starfsfólk Nettó um tveimur klukkustundum fyrir opnun til að búa verslunina undir áhlaup verslunarglaðra ferðamanna. Flestir kaupa brauð og vatn, skyr og annað tilvalið í nestispokann áður en haldið er lengra. Á milli klukkan níu og tólf er brjálað að gera í búðum á Egilsstöðum og sennilega víðar um Austurland. Eftir hádegi er algjör ládeyða þar sem íbúar vita að flest sé uppselt. 

Umferðin er svo annað mál. Mýmargir koma með Norrænu á húsbílum sem þeir keyra síðan um landið þvert og endilangt. Þannig skapast öngþveiti á Egilsstöðum þar sem húsbílaeigendur bítast um bestu bílastæðin. Þegar mest gengur á er lagt í kringum alla verslun Nettó og við söluturn N1. Margir taka jafnvel sénsinn og leggja bara meðfram götum eða í stæði fyrir utan vinnustaði. Í Sumarlandabroti, sem sjá má hér fyrir ofan, sjást húsbílar í röðum fyrir utan húsakynni endurskoðendaskrifstofunnar Deloitte á Egilsstöðum. 

Sumarlandinn tók tali nokkra ferðamenn sem flestir voru að kaupa sitt af hverju tagi í verslun Nettó á Egilsstöðum. Velflestir virtust vera á leið hringinn í kringum landið og höfðu því keypt þónokkuð inn. Þá virtust margir ekki vita að íslenska kranavatnið er vel drykkjarhæft og sáust nokkrir bera út kippur af vatnsflöskum til að hafa með sér í ferðalagið.