Keppnin hófst á B-flokki í morgun og þar hélt Ljósvaki frá Valstrýtu forystu sinni frá því í forkeppninni og hlaut að þessu sinni 8,93, sýndur af Árna Birni Pálssyni. Ísak frá Þjórsárbakka skaust upp um fjögur sæti í annað sætið með 8,77, sýndur af Teiti Árnasyni og þriðji varð Adrian frá Garðshorni, sem fór upp um fimm sæti, sýndur af Daníel Jónssyni með einkunnina 8,73.
Í Ungmennaflokki náði Benedikt Ólafsson á Biskupi frá Ólafshaga að skjótast upp fyrir Signýju Sól Snorradóttur, en mjótt er á munum, Benedikt með 8,66 en Signý Sól og Kolbeinn frá Horni I með 8,60. Glódís Rún Sigurðardóttir og Drumbur héldu þriðja sætinu með 8,52.
Í A-flokki gæðinga hækkaði Goði frá Bjarnarhöfn úr þriðja sæti upp í það fyrsta með 8,8, sýndur af Daníel Jónssyni, en skammt undan sitja þeir Þráinn frá Flagbjarnarholti og Þórarinn Eymundsson með 8,76. Glúmur frá Dallandi hækkaði sig úr sjötta í þriðja sæti í milliriðlunum, en þeir Sigurður V. Matthíasson hlutu í einkunn 8,69. Nokkuð var um dramatík í milliriðlunum þar sem hross sem þóttu líkleg til afreka skeiðuðu ekki og þar með var þeirra draumur úti.
Hrossin sem eru í 1. - 7. sæti að loknum milliriðlum fara beint í A - úrslit, en hrossin í 8. - 15. sæti fara í B - úrslit og sigurvegari þeirra færist svo upp í A - úrslit og fær þar eitt tækifæri enn til að berjast um gullið.
Einnig var keppt í slaktaumatölti og fjórgangi í dag og þar leiða eftir forkeppni Jakob Svavar Sigurðsson og Kopar frá Fákshólum með 8,03 í slaktaumatöltinu og Helga Una Björnsdóttir á Hnokka frá Eylandi með 7,77 í fjórgangi, sigursælt par þar á ferð, þau Jakob Svavar og Helga Una.
Á kynbótabrautinni fór fram yfirlitssýning á hryssum í dag. Í flokki sjö vetra og eldri hryssna er það Álfamær frá Pretsbæ set stendur efst með 8,70, sýnd af Árna Birni Pálssyni, en í flokki sex vetra hryssna eru jafnar með 8,49 þær Sögn frá Skipaskaga, sýnd af Helgu Unu Björnsdóttur og Þenja frá Prestsbæ, sýnd af Þórarni Eymundssyni. Sögn hlýtur þó efsta sætið í þessum flokki þar sem hún hefur hlotið hærri einkunn fyrir hæfileika, en aðaleinkunn samanstendur af einkunn fyrir hæfileika annars vegar og fyrir byggingu hins vegar.
Í fimm vetra flokki stendur efst Hildur frá Fákshólum með 8,47, einnig sýnd af Helgu Unu, en í fjögurra vetra flokki er það Vala frá Garðshorni á Þelamörk með 8,39, sýnd af Agnari Þór Magnússyni.
Á morgun, fimmtudag fer fram yfirlitssýning stóðhesta, auk þess sem B-úrslit í öllum flokkum eru á dagskrá og keppt verður í gæðingaskeiði og kappreiðaskeiði. Þá verður mótið formlega sett annað kvöld við hátíðlega athöfn með hópreið þar sem fulltrúar allra hestamannafélaga taka þátt.
Talið er að á fimmta þúsund gestir séu þegar mættir á landsmótið og reikna má með frekari fjölda þegar nær dregur helgi, en mótið nær hámarki á föstudag og laugardag og lýkur á laugardagskvöld.
Mynd: Sigurður V. Matthíasson og Glúmur frá Dallandi hefja sig til flugs í A-flokki gæðinga.