Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stjórn Borisar Johnsons „einfaldlega ekki lífvænleg“

06.07.2022 - 09:03
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Stjórn Borisar Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, er ekki lífvænleg. Hann getur ekki stjórnað landinu af neinu viti. Þetta segir Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Það hafi verið ótrúlegt að hann hafi náð að fylla í skörð þeirra sem sögðu sig frá ráðherraembættum í gær. 

Í upphafi vikunnar var Boris Johnson umtalaður eftir að í ljós kom að hann hafði skipað Chris Pincher í embætti aðstoðarþingflokksformanns Íhaldsflokksins eftir að hafa fengið fregnir af kvörtunum um óviðeigandi hegðun hans.

Pincer kornið sem fyllti mælinn

Eiríkur segir að þetta hafi verið kornið sem fyllti mælinn og aftur hafi komið upp umræða um heilindi forsætisráðherrans.

„Hann hefur orðið margsaga um hvað hann vissi um klögumál gegn Pincer og hvað ekki,“ segir Eiríkur. „Hann hefur verið mjög flinkur að víkja sér undan því að svara. En það er kannski líka akkúrat við það sem það opinberast hvernig umgengni hans við sannleikann getur verið frekar léttúðug,“ segir Eiríkur.

Má búast við að ríkisstjórn Bretlands falli?

Eiríkur segir að ríkisstjórnin sé lagskipt. Margir í neðra laginu hafi sagt af sér. 

„Það leit út fyrir í gærkvöldi að ríkisstjórnin riðaði til falls jafnvel. Honum tókst hins vegar að setja inn nýja ráðherra í ríkisstjórnina. Það virðist hafa verið með miklum harmkvælum líka. Þar sem Nadhim Zahawi sem tekur við fjármálaráðherrastöðunni, sem er næstvaldamesta embættið í bresku ríkisstjórninni, virðist hafa sett honum stólinn fyrir dyrnar og heimtað þetta embætti - annars færi hann,“ segir Eiríkur.

Aldrei nokkurn tímann komið önnur eins krísa og nú

Í stjórnartíð Borisar Johnsons hefur ríkisstjórnarborðið nötrað og það hefur oft leikið á reiðiskjálfi. Hvert málið hefur komið á fætur öðru og hrist upp í stjórninni. En aldrei nokkurn tímann hefur önnur eins krísa komið upp eins og gerðist um kvöldmatarleytið í gær. „Þetta er atburðarás sem fór stað í gær sem er þess eðlis að maður sér ekki hvernig forsætisráðherra Bretlands mun komast lifandi í gegnum hana. Jafnvel þó að hann sé töframaðurinn í breskur stjórnmálum þá lítur þetta út, tilfinningin í kringum þetta mál, öll umgjörðin, öll atburðarásin, er bara endurtekning á síðustu dögum Margrétar Thatcher,“ segir Eiríkur.

„Hann mun örugglega reyna að hanga á völdunum og allir fréttaskýrendur sem ég fylgist með, gera ráð fyrir því. En staðreynd málsins er eigi að síður sú að þegar þú missir traust þíns eigin samstarfsflokks í þeim mæli sem hann hefur misst það, þá er það er bara einfaldlega ekki lífvænlegt. Það getur vel verið að hann verði áfram forsætisráðherra að nafninu til í einhvern tíma. En þessi maður ekki að fara að stjórna Bretlandi á næstunni af neinu viti. Það liggur alveg ljóst fyrir,“ segir Eiríkur. 

Eins og rottur sem flýja sökkvandi skip

Eru einhverjar blokkir að myndast innan íhaldsflokksins? Sajid Javid heilbrigðisráðherra og Rishi Sunak fjármálaráðherra sögðu af sér í gærkvöldi. Er Sunak að huga að því að taka pláss Borisar?

„Bæði Sunak og Javid eru að stilla sér upp sem áskorendur og hugsanlegum frambjóðendum til formanns í Íhaldsflokknum. Þeir eru báðir hægri sinnaðri í efnahagsmálum en forsætisráðherra. Þeir hafa talað fyrir meira aðhaldi í ríkisfjármálum og sakað, undir rós að einhverju leyti, Boris um að vera eyðslusamur forsætisráðherra. Það eru mál uppi núna þar sem ríkisstjórnin þarf að tilkynna um fjárframlög í næstu viku. Þar hafa verið átök. Það er smávægilegur hugmyndafræðilegur ágreiningur líka,“ segir Eiríkur. 

„Þeir sem standa með Boris Johnson núna á næstunni munu falla með honum. Að einhverju leyti má draga fram hinn gamla samanburð um sökkvandi skipið og rotturnar,“ segir Eiríkur.