Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Slökkviliðsstjórinn meðal þeirra sem fyrst sáu eldinn

06.07.2022 - 16:44
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson / RÚV
Svanur Tómasson, slökkviliðsstjóri í Snæfellsbæ, var á akstri í morgun með syni sínum á leið að Hellisandi. Honum var litið á haf út og fylgdist þar með strandveiðibáti rétt úti fyrir landi. Skyndilega reis reykur upp af bátnum. „Þetta blossaði bara upp, var fyrst hvítur reykur en varð fljótt mjög dökkur.“

Slökkviliðsstjórinn hringdi um leið á Neyðarlínuna og telur að hann hafi átt fyrstu tilkynningu um málið. Hann segir björgunarbát hafa verið kominn á vettvang innan skamms. Fyrst átti að draga bátinn í höfn á Rifi. „Mér leist ekkert á það,“ segir Svanur og segir að því hefði getað fylgt sú hætta að eldur kæmist í aðra báta eða mannvirki. Því var brugðið á það ráð að draga bátinn, þá alelda, upp undir fjöru. 

Fyrst var reynt að slökkva eldinn með þar til gerðri froðu en þegar það gekk ekki var gripið til þess ráðs að moka sjó og sandi yfir bátinn með hjólaskóflu. Þannig náðist að slökkva eldinn. Svanur segir að nú liggi fyrir að tryggja flakið fyrir veðri og vindum.

Birgir Haukdal Rúnarsson sem gerði út strandveiðibátinn segist þakklátur öllum sem komu að björguninni. Skipverjann sakaði ekki, Birgir segir hann hafa brugðist hárrétt við. „Hann var fljótur að koma sér í galla og bát, það er fyrir mestu að ekki verði slys á fólki,“ segir Birgir sem er brugðið eftir atburði dagsins. 

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir