Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Íslensku Michelin-stjörnurnar

06.07.2022 - 13:52
dill · Erlent · Ferðamannaiðnaður · Frakkland · Hlaðvarp · Innlent · Matur · michelin · Óx · Rás 1 · Þetta helst
Mynd með færslu
 Mynd: Óx
Ísland getur nú státað sig af tveimur veitingastöðum sem bera Michelin-stjörnu og eru þar með í hópi tæplega þrjú þúsund veitingastaða um allan heim. En hvaða kröfur þurfa veitingastaðir að uppfylla til að fá þessar eftirsóttu stjörnur, þó ekki sé nema bara eina? Hvers vegna vilja sumir staðir ekki sjá þessar stjörnur og hvernig getur franskur dekkjaframleiðandi haft eitthvert vit á góðum mat? Þetta helst skoðaði Michelin-leiðarvísinn, upphaf hans og þróun undanfarna áratugi.

Norðurlöndin eru sögð brautryðjendur í sjálfbærri matargerð og slík viðurkenning var veitt hérlendum veitingastað við hátíðlega athöfn í Noregi í vikunni.

Kaupið dekk til að borða góðan mat

Michelin-stjörnurnar eiga sér nokkuð áhugaverða sögu sem er að mörgu leyti samtvinnuð sögu bílsins. Fyrsti Michelin-leiðarvísirinn var gefinn út um þarsíðustu aldamót, árið 1900, af Frakkanum André Michelin, sem stofnaði einmitt líka dekkjafyrirtækið sem við flest þekkjum, ásamt bróður sínum Edoard Michelin. Bræðurnir vildu búa til markað fyrir bíla og þar með dekkin sem þeir framleiddu. Fyrsti leiðarvísirinn, sem bræðurnir prentuðu í um 35 þúsund eintökum, var líka með leiðbeiningum um hvernig ætti að skipta um dekk og gera við þau, en þar var líka að finna lista af góðum veitingastöðum, hótelum, bifvélaverkstæðum og bensínstöðvum sem var að finna meðfram þjóðvegum Frakklands. Á þessum tíma voru bara nokkur hundruð bílar í landinu öllu, en bæklingarnir áttu að hvetja fólk til að ferðast um landið og borða góðan mat, og þannig búa til markaðsþörf fyrir bíla og þar af leiðandi dekk. Og þetta virkaði. Á fyrsta áratugnum stækkaði Michelin-veldið út fyrir landamærin, um meginland Evrópu og meira að segja til Norður-Afríku. Þó að veitingastaðalistinn væri sannarlega til staðar, og mögulega ástæðan fyrir vinsældunum, ekki það að dekk séu ekki sjarmerandi, þá var grundvallarforsendan fyrir þessu öllu saman að selja dekk. 

Heimsstríð breytti áherslunum

Fyrri heimsstyrjöldin setti strik í reikninginn hjá bræðrunum, eins og líklega flestum Evrópubúum á þeim tíma, og útgáfu var hætt þarna rétt á meðan heimurinn var á heljarþröm, frá 1914 til 1919, en 1920 kom hann út aftur, uppfærður. Engar auglýsingar, flottara efni og - bæklingarnir voru ekki lengur ókeypis heldur þurfti að borga fyrir þá. Hugmyndin að Michelin-stjörnunum var þarna byrjuð að fæðast.