Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fleiri þingmenn breska Íhaldsflokksins segja af sér

epa09419079 A handout photo made available by the UK Parliament shows British Prime Minister Boris Johnson during a debate on the Afghanistan crisis, in the House of Commons in London, Britain, 18 August 2021. Prime Minister Johnson had recalled parliament from recess to discuss the ongoing situation in Afghanistan.  EPA-EFE/UK Parliament / Roger Harris HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA
Titringur er í breskum stjórnmálum vegna afsagnar tveggja ráðherra úr ríkisstjórn Boris Johnsons, forsætisráðherra í kvöld. Fleiri þungavigtarmenn úr þingflokki Íhaldsmanna hafa sagt af sér í kjölfarið. Margir stjórnmálaskýrendur í Bretlandi spá því að Johnson muni hrökklast frá völdum innan tíðar.

Ráðherrarnir tveir sem sögðu af sér í kvöld voru þeir Sajid Javid, heilbrigðisráðherra, og Rishi Sunak, fjármálaráðherra. Báðir sögðust þeir ekki lengur get stutt forsætisráðherrann áfram og töldu brotthvarf sitt nauðsynlegt til þess að þrýsta á afsögn Johnsons.

Johnson sagði við breska fjölmiðla að honum þætti leitt að þeir hafi látið af embættum sínum. Hann er þegar búinn að skipa nýja ráðherra í þeirra stað. Nýr heilbrigðisráðherra er Steve Barclay og við fjármálaráðuneytinu tekur Nadhim Zahawi.

Varaformaður flokksins tekur pokann sinn

Eftir afsagnir ráðherranna hafa fleiri þungavigtarmenn úr þingflokki Íhaldsflokksins fylgt á eftir. Samkvæmt breska ríkisútvarpinu hafa Bim Afolami, varaformaður flokksins og Alex Chalk, aðstoðar-dómsmálaráðherra, báðir sagt af sér. Minnst fjórir aðstoðarmenn ráðherra hafa fylgt síðan Javid og Sunak greindu frá ákvörðunum sínum í kvöld.

Viðbúið er að hörð hríð verði gerð að Johnsons í fyrirspurnatíma forsætisráðherra í fyrramálið. Þetta virðist vera alvarlegasta krísa á stjórnmálaferli Johnsons, margir spá því að hann hrökklist frá, aðrir benda á að honum hafi tekist að sleppa hingað til þó að öll sund virtust lokuð.