Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ekki enn tekist að slökkva eldinn

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg - RÚV
Eldur kviknaði í strandveiðibáti eina til tvær sjómílur frá landi á Rifi á tíunda tímanum í morgun. Einn maður var um borð í bátnum, sem tókst að koma sér frá borði og í gúmmibjörgunarbát. Að sögn aðgerðastjóra Landhelgisgæslunnar hafa slökkvistörf ekki gengið nógu vel.

„Björgunarskipið kom þarna á vettvang og þá var reyndar skipverjinn kominn um borð í annan fiskibát. Skipverjinn fór síðar um borð í björgunarskipið sem að var þá að hefja slökkvistörf,“ segir Guðmundur Birkir Agnarsson aðgerðastjóri Landhelgisgæslunnar.

Hann bætir við að ekki hefur tekist að slökkva eldinn. Það séu vangaveltur um hvort að fleyta eigi bátnum upp í fjöru til að ljúka slökkvistörfum.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landhelgisgæslan fékk í morgun frá skipstjóra bátsins sem bjargaði skipverjanum, var líðan hans góð en honum vissulega brugðið.

Ekkert er vitað um eldsupptök en eldurinn virðist hafa borið brátt að, þar sem maðurinn náði ekki að senda neitt neyðarkall eða koma neinum boðum frá sér.

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV