Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Á annan tug lykilmanna hefur yfirgefið Boris

06.07.2022 - 09:45
British Prime Minister Boris Johnson leaves 10 Downing Street to attend the weekly Prime Minister's Questions at the Houses of Parliament, in London, Wednesday, May 25, 2022. A report into lockdown-breaching U.K. government parties says blame for a "culture" of rule-breaking in Prime Minister Boris Johnson's office must rest with those at the top. Senior civil servant Sue Gray's long-awaited report was published Wednesday. (AP Photo/Matt Dunham)
Boris Johnson heldur til þingfundar eftir að skýrsla Sue Gray var gerð opinber. Mynd: AP
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, berst nú fyrir pólitísku lífi sínu eftir að sífellt fleiri ráðherrar hafa sagt af sér embætti. Alls hefur hann misst á annan tug lykilmanna fyrir borð í væringum innan ríkisstjórnarinnar síðasta sólarhringinn, í kjölfar þess að tveir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, Sajid Javid heilbrigðisráðherra, og Rishi Sunak fjármálaráðherra sögðu skilið við ríkisstjórnina í gær.

Johnson segir að honum þyki leitt að ráðherrarnir hafi látið af embættum sínum. Hann er þegar búinn að skipa nýja ráðherra í þeirra stað. Nýr heilbrigðisráðherra er Steve Barclay og við fjármálaráðuneytinu tekur Nadhim Zahawi.

Mikill titringur er breskum stjórnvöldum og þarf Johnson að svara fyrir stöðuna í fyrirspurnartíma í Neðri deild breska þingsins í hádeginu í dag. Sajid Javid hefur boðað yfirlýsingu í kjölfar þess, samkvæmt fréttaveitu Sky News.

Flóttinn heldur áfram úr ríkisstjórninni í dag og samkvæmt fréttaveitu Sky News aukast líkur á því að ný vantrauststillaga berist innan fárra daga, verði afsagnirnar ekki til þess að Johnson segi af sér. 

Kjarnastefna flokksins hafi týnst

Fleiri þungavigtarmenn úr þingflokki Íhaldsflokksins hafa fylgt á eftir. Bim Afolami varaformaður flokksins og Alex Chalk aðstoðardómsmálaráðherra hafa einnig sagt af sér. Minnst fjórir aðstoðarmenn ráðherra hafa jafnframt horfið á braut.

Victoria Atkins dómsmálaráðherra, sendi forsætisráðherra afsögn sína um klukkan hálf ellefu í morgun. Hún segir almenn gildi samfélagsins, á borð við heilindi, velsæmi, virðingu og fagmennsku ættu að skipta öll máli. „Ég hef haft vaxandi áhyggjur og orðið fyrir sífellt meiri vonbrigðum á meðan þessi gildi hafa gefið eftir undir þinni stjórn í málum Patterson, Partygate og Pincher,“ segir Atkins.

Robin Walker ráðherra skólamála, sagði einnig af sér í morgun. Í bréfi til forsætisráðherrans segir Walker: „Því miður hafa nýlegir atburðir gert mér það ljóst að okkar ágæti flokkur, sem ég hef alltaf barist fyrir, hefur horfið frá kjarnastefnu sinni, með því að einblína sífellt á spurningar um hæfni leiðtogans.“

John Glen ráðherra efnahagsmála hefur einnig sent forsætisráðherra bréf með afsögn sinni. Slæm dómgrein Johnson í nýlegum málum hafi ráðið mestu um afstöðu Glen.

Nýjasti þingmaðurinn til að segja stöðu sinni lausri er Felicity Buchan, sem segist hrygg yfir stöðunni, forsætisráðherra hafi misst trúnað hennar og flokksfólks í kjördæminu.