Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir breskir ráðherrar segja af sér

05.07.2022 - 17:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir ráðherrar í ríkisstjórn Boris Johnson hafa sagt af sér; Sajid Javid, heilbrigðisráðherra og Rishi Sunak, fjármálaráðherra. Talið er að þetta gætu orðið endalok ríkisstjórnar Johnsons.

Í bréfi sem heilbrigðisráðherrann birtir á Twitter segir Javid að hann geti ekki haldið áfram að gegna stöðunni með góðri samvisku. Hann beri ekki lengur traust til forsætisráðherrans.

Hann segir að íhaldsflokkurinn hafi ekki alltaf verið vinsæll, en að hann hafi alltaf reynt að gæta hagsmuna almennings. Nú sé það hins vegar ljóst að almenningur sé ósammála því að flokkurinn beri hag almennings fyrir brjósti, og að vantrauststillaga á forsætisráðherrann í síðasta mánuði hafi staðfest að margir innan flokksins séu sömu skoðunar. 

Sunak tilkynnti líka um afsögn sína á Twitter. Þar segir hann að almenningur geri þá kröfu að starf ríkisstjórnarinnar sé tekið alvarlega. Hann skrifar að það sé honum erfitt að segja af sér á meðan heimurinn sé enn að glíma við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins og innrásar Rússa í Úkraínu. Engu að síður telji hann siðferðislega rétt að segja af sér.

Síðustu vikur hafa verið erfiðar fyrir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Í byrjun síðasta mánaðar kaus meirihluti þingmanna breska Íhaldsflokksins að fella vantrauststillögu á Johnson. Engu að síður kusu 148 þingmenn með henni og því var ljóst að hann stæði höllum fæti í embætti formanns Íhaldsflokksins og forsætisráðherra landsins.

Í vikunni hefur Johnson aftur verið í skotlínunni eftir að í ljós kom að hann hafði skipað Chris Pincher í embætti aðstoðarþingflokksformanns Íhaldsflokksins eftir að hafa fengið fregnir af kvörtunum um óviðeigandi hegðun hans.

Keir Starmer, leiðtogi stjórnarandstöðunnar hefur hvatt Johnson til að segja af sér. Þó telur hann að afsögn Johnsons sé ekki nóg.

„Eftir allan óþverrann, hneykslismálin og mistökin er það ljóst að þessi ríkisstjórn er að hrynja,“ skrifar Starmer á Twitter. Hann segir að íhaldsflokkurinn sé spilltur og það þurfi meira en eina uppsögn til að laga það. Hann segir að eina leiðin til að veita Bretum nýtt upphaf sé að fá nýja ríkisstjórn.

Fréttin verður uppfærð.

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV