Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Svíar og Finnar færast nær aðild að NATÓ

epa10052991 NATO Secretary General Jens Stoltenberg (C), Finland's Minister of Foreign Affairs Pekka Haavisto (L) and Sweden's Minister of Foreign Affairs Ann Linde react at the end of a joint press conference after the signature of the accession protocols to NATO of Finland and Sweden, at NATO headquarters in Brussels, Belgium, 05 July 2022.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
Jens Stoltenberg ásamt Pekka Haavisto og Ann Linde, utanríkisráðherrum Finnlands og Svíþjóðar. Mynd: EPA-EFE
Formlegur undirbúningur að inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið hófst í dag þegar sendiherrar aðildarþjóðanna þrjátíu undirrituðu aðildarsamning ríkjanna í Brussel. Góður dagur, sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, þegar hann greindi frá undirrituninni.

Svíþjóð og Finnland óskuðu eftir aðild að NATO eftir innrás Rússa í Úkraínu í fyrr á árinu. Öll aðildarríkin tóku umsókninni fagnandi nema Tyrkir. Erdogan, forseti þeirra, krafðist þess að ríkin afléttu banni við vopnasölu til Tyrklands og hættu að skjóta skjólshúsi yfir meinta hryðjuverkamenn. Ella beitti hann neitunarvaldi. Samkomulag náðist loks fyrir tæpri viku.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, greindi frá því í dag að formlegur undirbúningur að inngöngu landanna væri hafinn. Hann sagði þetta góðan dag í sögu Finnlands og Svíþjóðar og sömu leiðis NATO. Með þrjátíu og tvö ríki við borðið yrði bandalagið enn sterkara en áður og öryggi aðildarþjóðanna efldist. Ekki veitir af, sagði Stoltenberg, þar sem ástand öryggismála hefur ekki verið verra í marga áratugi.

Ann Linde og Pekka Haavisto, utanríkisráðherrar Svíþjóðar og Finnlands, voru viðstödd staðfestingu sendiherranna í dag. Bæði fögnuðu áfanganum, þökkuðu stuðninginn og kváðust vonast til að fá fulla aðild að bandalaginu sem fyrst.