Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir grísir ollu usla á golfvelli í Mosfellsbæ

04.07.2022 - 23:05
Innlent · golf · Golfvöllur · Grísir · Mosfellsbær · Svín
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Guðmundsson - Aðsent
Það blasti nokkuð óvenjuleg sjón við golfurum á Bakkakotsvellinum í Mosfellsbæ í dag. Þar voru tveir lausir grísir, sem höfðu strokið frá nærliggjandi sveitabæ.

Ólafur Guðmundsson, starfsmaður á Bakkakotsvelli, sagðist ekki vita til þess að svín hefðu flækst fyrir golfurum á vellinum áður. Hann auglýsti eftir eigenda grísanna tveggja á Facebook-hópnum: Mosó - bærinn okkar, þar sem lausaganga grísa er ekki ákjósanleg þar sem spilað er golf.

Grísirnir glöddu starfsfólk Neyðarlínunnar

„Þeir voru að elta golfara og fóru svo að reyna að tæta völlinn. Svo við settum auglýsingar á íbúahópinn og heyrðum svo í lögreglunni. Ég hef sjálfur aldrei heyrt manneskju hjá Neyðarlínunni hlæja eins mikið og þegar við hringdum“ sagði Ólafur.

Eltingaleikur á bílastæði golfvallarins „súrrealískur“

Þá sagði hann að lögreglufulltrúarnir sem fengu verkefnið hafi verið mjög spenntir að mæta á vettvang. Aftur á móti hafi eigandi grísanna, bóndi á bænum Skeggstöðum, fljótlega komið og sótt hrekkjusvínin sín, sem þurfa því ekki að gista fangageymslur lögreglunnar í nótt.

Ólafur segir eltingaleik fólks og grísa á bílastæði við völlinn hafa vakið mikla kátínu.

„Þetta var nú bara orðið eins og Húsdýragarðurinn á tímabili. Grísirnir tveir, svo var kominn hundur á eftir þeim og köttur sem ákvað að planta sér niður við nokkra teigi“ sagði Ólafur.

Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir