Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Prammi með hátt í 400 tonn af fóðri enn á hafsbotni

04.07.2022 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Fóðurpramminn Muninn liggur enn á botni Reyðarfjarðar með hátt í 400 tonn af laxafóðri innanborðs. Pramminn sökk fyrir einu og hálfu ári og leggur Hafnarstjórn Fjarðabyggðar áherslu á að hann verði hífður af hafsbotni nú í sumar.

Fyrir um einu og hálfu ári gerð mikið ísingarveður á Austfjörðum og hlóðst ísing meðal annars á fóðurpramma fyrir laxeldi. Pramminn Muninn sem þjónaði eldiskvíum á Gripalda í Reyðarfirði sökk í óveðrinu og litlu munaði að eins færi fyrir öðrum pramma á svæðinu. 

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa að pramminn liggi á 42 metra dýpi, standi upp á endann með stýrishúsið niður og hangi í tveimur ankerum að aftan. 18 þúsund lítrum af dísilolíu var dælt úr prammanum en í honum eru enn um 375 tonn af fóðri og um 70 rúmmetrar af fæðubótarefni fyrir lax. Göt voru boruð á fóðursíló til að koma í veg fyrir gasmyndun. 

Til stóð að hífa prammann síðasta sumar en Umhverfisstofnun samþykkti ósk Laxa fiskeldis um að fresta aðgerðum. Flakið liggur of nálægt akkerislínum eldiskvía og þá þarf að fjarlægja fóður úr prammanum til að létta flakið fyrir hífingu. Óráðlegt þótti að gera það með lifandi fisk í nágrenninu. Nú er hins vegar búið að slátra, ekkert eldi á svæðinu vegna veirusjúkdóms og því tækifæri til að losna við prammann.  

Hafnarstjórn Fjarðabyggðar lagði á það áherslu á fundi sínum nýverið að TM sem er tryggingarfélag Laxa fiskeldis, færi í það við fyrsta tækifæri að fjarlægja flakið meðal annars til að fyrirbyggja mengun. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarstjóra Fjarðabyggðar stóð til að fara í verkið nú um mánaðamótin en því var frestað og er nú verið að setja saman nýja tímaáætlun.