
Óx veitingahús fær Michelin-stjörnu
Það var stór dagur í veitingageiranum á Norðurlöndunum í dag þegar Michelin Guide kynnti lista yfir nýja Michelin-veitingastaði árið 2022 við hátíðlega athöfn í Stafangri í Noregi.
Nokkrir Íslendingar voru viðstaddir athöfnina, þar á meðal Rúnar Pierre Heriveaux og Þráinn Freyr Vigfússon fyrir hönd veitingahússins Óx, og Gunnar Karl Gíslason fyrir hönd veitingastaðarins Dill.
Fréttastofa RÚV náði tali af Rúnari Pierre eftir athöfnina. Hann segir að Michelin-stjarna sé besta auglýsingin fyrir Ísland og alla hérlenda veitingastaði en breyti ekki miklu fyrir starfsfólk Óx sem heldur áfram í sínu með auknu sjálfstrausti. Rúnar Pierre, sem er kokkur ársins í ár, segir að þetta sé hans besta ár.
Dill fékk fyrst Michelin-stjörnu árið 2017. Veitingahúsið heldur stjörnunni í ár og hlýtur einnig græna stjörnu sem veitt er sjálfbærum veitingahúsum.