Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nýtt afbrigði Covid-19 meira smitandi

04.07.2022 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - Rúv
Frá miðjum júní hefur covid smitum farið fjölgandi en yfirlæknir sóttvarna segir alvarleg veikindi ekki áberandi. Afbrigðið sem nú er ríkjandi er meira smitandi en hin fyrri. 

Fleiri smit en eru skráð

Uppsafnaður fjöldi smita síðustu fjórtán daga á hverja hundrað þúsund íbúa er eittþúsund og sjötíu. Í síðustu viku voru að jafnaði að greinast um fjögurhundruð smit á dag með hrað- og PCR prófum.

„Svo vitum við að það eru ekki allir að fara endilega í þessi próf. Það eru margir sem gera heimapróf, kannski einhverjir sem gera engin próf. Þannig að við gerum okkur grein fyrir því að tilfellin eru sennilega fleiri,“ segir Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sóttvarnasviði hjá embætti landlæknis.

Alvarleg veikindi ekki áberandi

Guðrún segir að þó að smitum hafi fjölgað sé enn langt í land að smittölur séu jafn háar og voru fyrr á árinu.

„Þetta afbrigði sem er í gangi núna er klárlega meira smitandi. Það hefur verið sýnt fram á það og við sjáum það líka. Þetta BA5 sem er að taka yfir hjá okkur eins og hefur verið í öðrum löndum þar sem það hefur komið. En það hefur ekki verið áberandi að því fylgi mikil aukning af alvarlegum veikindum,“ segir Guðrún.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Landspítala sem voru gefnar út fyrsta júlí eru 33 inniliggjandi með covid nítján þar af þrír á gjörgæslu og tveir af þeim í öndunarvél. Á sjúkrahúsinu á Akureyri eru einungis tveir inniliggjandi en voru tíu fyrir helgi. Hvorugur þeirra er á gjörgæslu.

Erfitt að segja hvaðan smit koma

Smitrakningu hefur verið hætt þannig að Guðrún segir erfitt að meta hvort mikið sé um hópsmit og hvaðan smitin berast.

„Það er náttúrulega aukin hópamyndun og það er minni grímunotkun og þetta er meira smitandi afbrigði. Þess vegna erum við nú að hvetja til þess að fólk fari í örvunarbólusetningu.“