Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nokkrir sumarslagarar í ferðalagið

Mynd: Baggalútur / Baggalútur

Nokkrir sumarslagarar í ferðalagið

04.07.2022 - 16:30

Höfundar

Það er ekki að sjá að tónlistarfólkið okkar fari í sumarfrí miðað við útgáfuna nú í byrjun júlí. Þau sem kveða sér hljóðs í Undiröldunni að þessu sinni eru Herbert Guðmundsson, Baggalútur, Dr Gunni, Skoffín, Hreimur, Á móti sól, Lára Rúnars, Birgir Hansen, Una Schram, Kusk ásamt Óvita, Ensími og Moskvít.

Herbert Guðmundsson – I Follow You

Tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson sendi á dögunum frá sér lagið I Follow You sem hann samdi ásamt Hlyni Sölva Jakobssyni. Lagið er með nostalgískum áhrifum frá níunda áratugnum þar sem Herbert syngur, Hlynur Sölvi sér um forritun, taktsmíðar, hljómborð og hljóðgervla í félagi við Halldór Ágúst Björnsson og það er síðan Pétur V. Pétursson sem spilar á rafgítar.


Baggalútur – Hér er ég kominn

Baggalútur sendi í síðustu frá sér lag sem þeir segja hámóðins hásumarsmell sem auðvelt er að dansa og dilla sér við á björtum sumarnóttum. Lagið er eftir þá Braga Valdimar Skúlason og Guðmund Pálsson. Í textanum lýsir ljóðmælandi hugljúfri og eldheitri ástarsögu og upptendraðri upplifun gagnkvæms aðila í þeim kynnum.


Dr. Gunni – Faðir Abraham

Hljómsveitin Dr. Gunni, sem er skipuð þeim Gunnari Lárusi Hjálmarssyni söngvara og gítarleikara, Guðmundi Birgi Halldórssyni gítarleikara, Grími Atlasyni bassaleikara og Kristjáni Frey Halldórssyni trommara, hefur sent frá sér lagið Faðir Abraham. Lagið segir sveitin að sé óvenju pólítískt en það eru þær Anastasiia Yefimenko pg Jelena Ciric sem syngja bakraddir.


Skoffín – Guttamenning

Meira rokk því hljómsveitin Skoffín hefur sent frá sér lagið Guttamenning. Lagið og textinn eru eftir sveitina sem hefur vakið athygli fyrir plötur sínar, Skoffín bjargar heiminum frá 2019 og Skoffín hentar íslenskum aðstæðum sem kom út ári síðar. 


Una Schram - p.w.i.p.o. (pretty when I'm pissed off)

Tónlistarkonan Una Schram hefur sent frá sér lagið p.w.i.p.o. (pretty when I'm pissed off) sem er eftir hana og Arnar Inga Ingason sem kallar sig Young Nazareth. Lagið er tekið af þröngskífunni Mess mixtape og unnin í samstarfi við pródúserinn fyrrnefnda Young Nazareth og listræna stjórnandann Júlíu Grönvald.


Lára Rúnars – Stofn

Tónlistarkonan Lára Rúnars hefur sent frá sér lagið Stofn. Það er af væntanlegri plötu hennar sem heitir einfaldlega 7. Öll lög og textar á plötunni eru eftir Láru en upptökustjórn var í höndum Arnars Guðjónssonar.


Birgir Hansen – Poki

Birgir Jakob Hansen hefur sent frá sér samnefnda plötu þar sem hann spilar á rafgítar og syngur lagið Poki. Hann hefur sér til aðstoðar Sölva Stein Jónsson á  trommur, Snævar Örn Jónsson á bassagítar, Gunnar Benediktsson á rafgítar og Orra Starrason á hljóðgervil.


Kusk, Óviti – Elsku vinur

Lagið Elsku vinur sömdu þau Hrannar Máni Ólafsson og Kolbrún Óskarsdóttir á fjórum tímum. Að þeirra sögn byrjaði lagið að mótast sem hljómar á gítar sem Hrannar tók lengra en Kolbrún samdi laglínu viðlags og textann. 


Ensími – Hold Hands

Lagið Hold Hands er það fyrsta sem heyrist af tilvonandi sjöttu plötu hljómsveitarinnar Ensími. Lag og texti eru eftir sveitina sem sendi síðast frá sér lagið Tvær verur árið 2019.


Á móti sól – Höldum áfram

Nýja lagið með strákunum í Á móti sól er slagarinn Höldum áfram eftir þá Heimi og Magna en Bassi Ólafs og Vignir Snær sáu um upptökur. Lagið er að sögn sveitarinnar merkilegt fyrir þær sakir að þetta er 25. árið í röð sem Á móti sól starfar og sendir frá sér tónlist.


Hreimur – Sólin er sest

Tónlistarmaðurinn Hreimur Örn Heimisson, sem er líklega þekktastur úr aldamótabandinu Landi og sonum, hefur sent frá sér lagið Sólin er sest. Þar fær hann aðstoð við flutninginn frá Vigni Snæ, Benedikt Brynleifssyni, Samúel J. Samúelssyni, Kjartani Hákonarsyni og Þorbirni Sigurðssyni.


Klaki – For

Tónlistarmaðurinn Gísli Brynjarsson, eða Klaki, sem er tónlistarskólaður í Berlín hefur sent frá sér eigið lag og ljóð sem heitir For. Lagið er af plötunni Hollow sem er þriggja laga smáskífa.


Moskvít – Perfect Little Wonder

Hljómsveitin Moskvít, sem er af Suðurlandi, hefur sent frá sér eina plötu og er með aðra í smíðum. Lagið Perfect Little Wonder er einmitt fyrsta lag af þeirri mögulegu plötu sem þeir eru ekki vissir um hvort verði stór eða lítil.