Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lögreglan upplýsti um þau særðu og látnu í morgun

epa10050843 Three people embrace each other in front of the Fields shopping center in Copenhagen, Denmark, 03 July 2022. A shooting took place, on the afternoon of 03 July, in the Fields shopping center on Amager in Copenhagen's Orestad. Copenhagen Police confirm that at least three people have been killed.  EPA-EFE/Olafur Steinar Rye Gestsson  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Verslanamiðstöðin Field's verður lokuð að minnsta kosti í viku fram á mánudag 11. júlí vegna skotárásarinnar í gær. Kaupmannahafnarlögreglan upplýsti um stöðu mála á blaðamannafundi klukkan sex í morgun.

Tuttugu og tveggja ára gamall maður er í haldi lögreglu en Søren Thomassen lögreglustjóri í Kaupmannahöfn greindi frá því að sautján ára danskur piltur og stúlka létust í árásinni og 47 ára rússneskur ríkisborgari búsettur í Danmörku.

Tvær danskar konur, 19 ára og fertug, sextán ára sænsk stúlka og fimmtugur sænskur karlmaður særðust alvarlega í árásinni og liggja á sjúkrahúsi.

Nokkrir til viðbótar særðust minna. Fjöldi fólks var í Field's en tónleikum stórstjörnunnar Harry Styles í Royal Arena við hliðina á verslanamiðstöðinni var frestað.

Allmargir Íslendingar hugðust sækja tónleikana og voru því nærri árásarstaðnum í gær. Styles lýsti samúð sinni og hryggð á Twitter í nótt, kvaðst dá Kaupmannahöfn og íbúa hennar og sagði það afar leitt að hafa ekki getað varið kvöldinu saman.

Lögreglan sagði í gær engar vísbendingar um annað en að árásarmaðurinn hefði verið einn að verki en lögreglumenn hafa verið á öryggisvakt við Field's í nótt og á fleiri stöðum í Kaupmannahöfn. Ekkert bendir til hryðjuverkatengsla að sögn Thomassen. 

Forsvarsmenn Tívolísins hafa aflýst hátíðahöldum sem áttu að vera í dag í tilefni þjóðhátíðardags Bandaríkjanna og mótmælagöngu að bandaríska sendiráðinu til stuðnings frelsi til þungunarrofs hefur einnig verið aflýst.

Árásarmaðurinn bar löglegt skotvopn og hníf en hafði ekki leyfi til notkunar þeirra. Hann verður leiddur fyrir dómara í dag en það þarf að gerast eigi síðar en sólarhring eftir handtöku. 

Fréttin var uppfærð klukkan 6:48 með upplýsingum um þau sem létust og særðust í árásinni.