Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hátt í tveggja metra snjóskaflar í Öskju

04.07.2022 - 16:15
Mynd með færslu
Myndin er gömul en gæti þó átt vel við um helgina ef veðurspár rætast.  Mynd: Sigurður Erlingsson - RÚV
Um tveggja metra skafrenningsskaflar mynduðust á Öskjuvegi í stórhríð í gær. Vegurinn er ófær að hluta. Landvörður segir að búast megi við öllu á hálendinu en svo háir skaflar séu sjaldgæfir í byrjun júlí.

Öskjuvegur að hluta ófær

„Í nótt og í gær þá var bara hreinlega stórhríð í Öskju þannig að Öskjuvatnsvegur, eða síðustu tveir kílómetrarnir eru ófærir. Þar eru komnir alveg tæplega tveggja metra háir skafrenningsskaflar,“ segir Sigurður Erlingsson landvörður í Öskju.

Ófært er bílum frá Drekagili og upp í Vikraborgir og erfitt að ganga svo langa leið í snjó. Hann ráðleggur gestum að leggja ekki á þessa leið fyrr en færð hefur skánað. Hann segir aðeins vera farið að létta til og það sjáist til Herðubreiðar sem sé alhvít niður í rætur.

Mynd: Sigurður Erlingsson / RÚV
Myndskeið tekið í gær

Óvanalegt að skaflarnir séu svo háir

Er þetta óvanalegt í byrjun júlí?

„Ja, það getur snjóað hvaða dag sem er hérna á hálendinu en það er kannski óvenjulegt að það verði alveg næstum tveggja metra háir renningsskaflar,“ segir Sigurður.

„Má búast við öllu, alltaf“

Sigurður hefur lengi verið landvörður á hálendinu. Hann segir að  Íslendingar séu vanir vetrarveðri um mitt sumar en enginn erlendur ferðamaður búist við snjókomu í júlí.

„Veturinn ekki alveg að hætta en sumarið er bara að byrja. Á hálendinu má búast við öllu, alltaf,“ segir Sigurður að lokum og vonar að vetrinum á hálendinu sé lokið í bili.

Mynd: Sigurður Erlingsson / RÚV