Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Fagra og friðsæla höfuðborgin breyttist á augabragði“

epa10050850 People react in front of the Fields shopping center in Copenhagen, Denmark, 03 July 2022. A shooting took place, on the afternoon of 03 July, in the Fields shopping center on Amager in Copenhagen's Orestad. Copenhagen Police confirm that at least three people have been killed.  EPA-EFE/Olafur Steinar Rye Gestsson  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Skömmu fyrir miðnætti sendi Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur frá sér yfirlýsingu vegna skotárásinnar í Kaupmannahöfn. Hið sama gerði Margrét Danadrottning ásamt Friðriki ríkisarfa og Mary eiginkonu hans. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, sendi Dönum samúðarkveðjur.

Frederiksen segir grimmilega árás hafa verið gerða á Danmörku þar sem saklausir borgarar létust og særðust. „Það var ráðist á saklausar fjölskyldur í verslunarferð eða úti að borða. Börn, unglinga og fullorðna,“ segir Frederiksen sem sendir aðstandendum hinna látnu dýpstu samúðarkveðjur.

„Og ég vil segja þetta við þá Dani sem voru nærri þessum voðaatburði. Stöndum saman og styðjum hvert annað á þessari erfiðu stund.“ Hún segir alla Dani hafa verið hrifsaða á brott frá birtu nýhafins sumars og að það sem gerðist sé óskiljanlegt, tilgangslaust og átakanlegt.

Þakkir sendar lögreglu og hjálparsveitum 

„Fagra og alla jafna friðsæla höfuðborgin okkar breyttist á örskotsstundu,“ segir Frederiksen sem þakkar lögreglu, hjálparsveitum og sjúkraflutningafólki ásamt öllum þeim sem nærri voru og tilbúin að veita aðstoð.

Sömu skilaboð bárust frá hirðinni í kvöld þar sem einnig var áréttað mikilvægi þess að sýna samstöðu og umhyggju. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendi Dönum samúðarkveðjur á Twitter. Þar sagði hún nístandi sorgartíðindi hafa borist frá Danmörku í kvöld. „Mannslíf hafa tapast af völdum óskiljanlegs og tilgangslauss ofbeldis. Danska þjóðin er í huga Íslendinga í dag. Við stöndum með ykkur.“

Þrjú látin og allmörg særð

Søren Thomassen lögreglustjóri í Kaupmannahöfn staðfesti á blaðamannafundi í kvöld að maður á fimmtugsaldri og tvær yngri manneskjur væru látin eftir árásina í Field's verslanamiðstöðinni.

Jafnframt væru nokkur særð og þar af þrjú alvarlega. Thomassen staðfesti einnig að 22 ára gamall maður hefði verið handtekinn, sem verður yfirheyrður og ákærður í fyrramálið.

Lögregla hefur boðað til blaðamannafundar vegna málsins klukkan átta að staðartíma eða klukkan sex að íslenskum tíma.