Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Erlendir doktorsnemar mæla við Kröflu

04.07.2022 - 09:17
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
15 erlendir doktorsnemar eru nú við mælingar við Kröflu í tengslum við stórt samevrópskt verkefni. Mælingar og rannsóknir eru forsendur þess að skilja hvernig nýta megi jarðhita sem best, segir einn af forsvarsmönnum verkefnisins.

Einstakt að vita hvar kvikan er

Verkefnið heitir IMPROVE en innan þess er unnið að rannsóknum í Kröflu og Etnu á Ítalíu. Tólf háskólar og rannsóknarstofnanir koma að verkefninu.  Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands leiðir verkefnið á Íslandi en Landsvirkjun er einnig þátttakandi.

Krafla er á einu best þekkta jarðhitasvæði heims en þar hefur fundist kvika á 2,1 kílómetra dýpi. Það er einstakt að vita nákvæmlega hvar kvikan er.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ er með hópnum við Kröflu. „Það hefur reynst  mjög erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvar kvikan liggur, hvernig dreifist, hvað þetta eru stór hólf af bráðnu bergi o.s.frv.“

Ríflega 200 mælar á svæðinu

Komið hefur verið upp meira en 200 mælum til að átta sig betur á dreifingunni. Doktorsnemarnir koma fyrir, fylgjast með og lesa af mælunum.

Magnús Tumi segir svo umfangsmiklar mælingar hafa mikla fræðilega þýðingu. „En mögulega heilmikla praktíska þýðingu líka. Hvernig getum við nýtt þessi jarðhitasvæði sem best, þá þurfum við við að skilja þau sem best.“

Owen McCluskey er einn nemanna. Hann er að mæla dýpt grunnvatnsborðsins. „Sem stendur er það um 136 metrum undir yfirborðinu en það er talsverð vinna við að snúa keflinu með málbandinu á. Það eru talsvert margir hringir sem þarf að snúa.“

Clothilde Biensan er einnig við mælingar og skráir niður breytingar á dýpt grunnvatnsborðsins. „Við viljum sjá langtímaþróunina og því virðist mæling á tveggja tíma fresti henta vel.“

Ólíklegt að Krafla gjósi næst

Kröflueldar stóðu frá 1975 til 1984  og þar á undan Mývatnseldar upp úr 1720.

Magnús Tumi segir að svo virðist vera að Krafla hún rumski svo um munar á um 250 eða nokkuð hundrað ára fresti. „Ég myndi a.m.k. ekki veðja miklum peningum á að hún verði næst að gjósa.“