
Endurreisn Úkraínu kostar hundruð milljarða dollara
Þetta kom fram í dag á alþjóðlegri ráðstefnu í Lugano í Sviss. Svissnesk stjórnvöld efndu til hennar og þar á að ræða möguleikana á að endurreisa Úkraínu eftir að Rússar fara þaðan með herlið sitt.
Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, gerði fundarmönnum grein fyrir þeirri gríðarlegu eyðileggingu sem hernaður Rússa hefur haft í för með sér. Hann sagði að stjórnvöld í Kænugarði mætu tjónið á 750 milljaraða dollara. Þar sem Rússar hefðu valdið því bæri þeim skylda til að greiða fyrir skaðann.
Smyhal kvaðst vonast til að peningar sem fást fyrir eignir rússneskra milljarðamæringa, svonefndra ólígarka, yrðu notaðir til uppbyggingarinnar. Fasteignir þeirra, snekkjur og ýmsar aðrar eignir voru gerðar upptækar eftir innrás Rússa í febrúar.
Óháð svissnesk samtök, sem nefnast Public Eye, fullyrða að Sviss sé afdrep fyrir fjármuni rússnesku auðmannanna og þar fái Rússar aðstoð við milliríkjaviðskipti sín með olíu, korn og kol. Þá séu háar fjárhæðir Rússa geymdar í svissneskum bönkum. AP fréttastofan hefur eftir Samtökum svissneskra banka að eignir rússneskra viðskiptavina þeirra í bönkunum nemi um það bil 155 til 210 milljörðum dollara.