„Ég er líka versti vinur minn“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er líka versti vinur minn“

04.07.2022 - 15:10

Höfundar

Söngkonan Hera Björk, sem svaraði tuttugu erfiðum spurningum, segir að fólk eigi að vera sinn besti vinur en það sé ekki alltaf þannig. Frekja, yfirgangur og stjórnsemi segir hún að sé mest óþolandi í eigin fari og hún sofnar með kvíðahnút í maganum yfir morgundeginum.

Tónlistarkonan dáða, Hera Björk Þórhallsdóttir, er ekki bara frábær söngkona heldur er hún einnig skógarbóndi. Hera Björg ræðir við Sigurð Þorra Gunnarsson og Friðrik Ómar Hjörleifsson í Félagsheimilinu á Rás 2 og svarar 20 spurningum sem enginn vill svara.    

Er fimmtug og ræður hvenær hún á afmæli 

Hera Björk átti stórafmæli í mars þegar hún varð fimmtug. Veisluna ákvað hún þó að geyma þar til sumarið væri komið og hún gæti verið viss um að ekkert páskahret myndi herja á gesti. „Ég hugsaði bara, nei Hera, nú ertu fimmtug og nú máttu ráða þessu,“ segir hún. „Ég vil eiga afmæli og halda veisluna mína á fallegum sumardegi í hundrað prósent óvissu um hvernig veðrið er. Það eina sem ég veit er að það eru ekki páskar og það eru flestir í bænum.“ 

Hera Björk er ættuð frá Víðum í Reykjadal í Þingeyjarsveit og þar hélt hún veisluna um helgina. „Ég ákvað að það væri langbest að hafa aðferðafræðina að bjóða fimm hundruð manns og þá koma hundrað.“ Hera er með skógræktarsamning við ríkið til fimmtán ára sem felur í sér að ríkið sér henni fyrir rúmlega tíu þúsund plöntum á ári hverju sem hún og fjölskyldan setja niður. „Þetta er kvöð hjá börnunum okkar en þau verða sjúklega stolt af þessu þegar fram líða stundir,“ segir Hera.  

Synti nakin í Cannes og finnst rassinn á sér geggjaður 

Hera svaraði tuttugu spurningum sem enginn vill svara og kom þá í ljós að hún hefur að sjálfsögðu synt nakin í sjó. „Þá var ég Cannes í Frakklandi í dásamlegri konuferð og við dúndruðum okkur í sjóinn, af því að okkur fannst það vera það sem við ættum að gera á þessu augnabliki.“ 

Hera segir sína helstu kosti vera hvatvísi, hlátursýki og svefnsýki og ef hún ætli að heilla einhvern upp úr skónum myndi hún reyna að hlusta á viðkomandi og komast að hvað hann hefur mesta þörf fyrir. „Svo myndi ég hjóla í það, að sinna þeim þörfum.“ 

„Mér finnst reyndar alltaf rassinn á mér geggjaður,“ er svar hennar við hver fallegasti líkamspartur hennar sé. „Alltaf þegar ég horfi á mig í spegli hugsa ég: Ókei, þú ert siginn en djöfull ertu sætur,“ segir hún og það sama eigi við um brjóstin. „En ég hef líka alltaf verið hrifin af nefinu á mér.“ 

Sofnar með kvíðahnút í maganum 

Hún segir óheiðarleika, ólæknandi þrjósku og húmorsleysi reita sig til reiði og þrátt fyrir að iðka ekki eftirsjá sér hún rosalega eftir íbúðinni sem hún bjó í þegar hún var búsett í Kaupmannahöfn. „Hún var, og er, alveg geggjuð. Ég á svo góðar minningar þaðan og ég hefði aldrei átt að sleppa henni.“ Annars þýði lítið að lifa í eftirsjá, lífið leiði fólk þangað sem það á að fara. „Annars hefði ég til dæmis aldrei kynnst Friðriki,“ bætir hún við.  

Sitt mesta afrek segir Hera að sé að vakna á hverjum degi og fara fram úr rúminu. „Það er að koma í ljós að ég er svona miðaldra kona með ADHD og ég sofna alltaf með to-do listann. Þá fæ ég alltaf pínu kvíðahnút í magann,“ segir hún og miklar morgundaginn fyrir sér. Þess vegna finnist henni hún vera sjúkleg hetja fyrir að rífa sig fram úr og takast á við daginn.  

Ef Hera ætti að halda partý og mætti annað hvort bjóða Stefáni Hilmars eða Sigga Hall segist hún myndu bjóða Sigga Hall og skella honum fyrir framan grillið. „Ég er með nóg af söngvurum, sorrý Stebbi.“ Að sama skapi yrði Ásdís Rán fyrir valinu gegn Lindu P. og myndi hún biðja hana um að koma inn á vagni með lúðrasveit. 

Frekja, yfirgangur og stjórnsemi

En hvað ætli sé mest óþolandi í fari Heru? „Einhverjir myndu segja stjórnsemi, ætli ég geri það ekki líka,“ segir hún og bætir við að oft sé hún með vanþóknunarsvip og tón sem gæti farið í taugarnar á fólki. „En það er örugglega einhvers konar frekja, yfirgangur og stjórnsemi, þegar sá gállinn er á mér,“ segir Hera og hlær.  

Misrétti í heiminum og mannvonska grætir Heru. „Hvað fólk getur verið vont við fólk, mér finnst það hræðilegt. Og ég tala nú ekki um hvað fólk getur verið vont við dýr, þetta grætir mig.“ Fávitar í umferðinni fara mest í taugarnar á henni og hún óttast mest að vera alveg alein.  

Besti vinur Heru ætti að vera hún sjálf segir hún. „En það er ekkert alltaf satt, ég er líka versti vinur minn.“  

Það versta við Ísland er verðlagið og íslenska krónan sem Hera telur að við værum betur komin án. En það besta sé íslenska veðráttan og hún vill fá vindinn beint upp í nasirnar. „Ég hef búið í landi þar sem er ekkert veður, alltaf gott og það er geggjað en þá hefur maður ekkert til að tala um!“  

Spurningaleikurinn er ákveðin sjálfsskoðun og Hera er nú fróðari um sjálfa sig en fyrr.  

Rætt var við Heru Björk Þórhallsdóttur í Félagsheimilinu á Rás 2. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég er sextíu og sex ára og ég sakna mömmu“