Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skotmaðurinn kom hlaupandi í flasið á Ívani

03.07.2022 - 19:21
Mynd: Ívan Þór Ólafsson / Ljósmynd
Ívan Þór Ólafsson var staddur fyrir utan verslunarmiðstöðina Field´s í Kaupmannahöfn ásamt syni sínum þegar maður, sem grunaður er um að hafa skotið að fólki þar hljóp þaðan út. Maðurinn var örskammt frá Ívani, sem faldi sig í runna.

 Ég var fyrir utan þar sem þessi skotmaður kemur út þegar hann er búinn að hleypa skotum af inni í Field´s og heldur áfram að hleypa af skotum á bílastæðinu hér fyrir utan,“ segir Ívan.

Hann er á ferðalagi á húsbíl sinum í Danmörku og hafði lagt honum á bílaplani við Field´s. Hann segir að hann hafi séð fólk koma á harða hlaupum út úr verslanamiðstöðinni og haldið að það tengdist tónleikum sem halda á í nágrenninu. 

„En svo fáum við veður af því að það sé verið að hleypa af skotum inni i Field´s og fljótlega eftir það kemur maður með riffil út úr Field´s og gengur í áttina að okkur þar sem við stöndum.“

Var hann nálægt þér? „Já, hann var mjög nálægt mér. Ég hrópa á son minn að koma sér í burtu. Hann kemur í áttina að okkur, þetta eru bara nokkrir metrar. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við, maður hálffrýs… En ég endaði svo á því að hlaupa nokkra metra í runna og hringja í foreldra mína á Íslandi. Meðan ég var í símanum hleypti hann tveimur eða þremur skotum af. Og ég bara beið á jörðinni. Það eina sem maður getur gert í svona stöðu er að forða sér.“

Og hvað gerðist svo eftir að maðurinn hleypti þessum skotum af þarna skammt frá þér? „Ég heyrði að það er komin lögregla á svæðið; ég heyrði í sírenunum. Svo fékk ég símtal frá syni mínum sem náði að koma sér aðeins lengra í burtu og þá var búið að handtaka þann sem var að hleypa af skotum í því augnabliki.“

Ívan þurfti að koma úr felum í runnanum með hendur réttar upp fyrir höfuð að beiðni lögreglu. „Þá sé ég þennan mann á jörðinni ásamt lögreglu og horfði á hann í dágóðan tíma þar sem ég mátti ekkert fara af svæðinu.

Hvernig líður þér? „Maður er náttúrulega í sjokki en vonast náttúrulega til að þeir sem voru inni í Field´s þegar hleypt var af skoti og gátu ekki komið sér neitt í burtu; að það sé í lagi. “

Ívan segist litlar upplýsingar hafa fengið um atburðarásina, þegar fréttastofa náði tali af honum skömmu fyrir klukkan sjö var hann á svæði verslanamiðstöðvarinnar ásamt miklum fjölda fólks og hafði nýverið fengið þær upplýsingar að hann þyrfti að bíða þar í nokkra stund til viðbótar.