Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Jafnstórar fylkingar Skota með og á móti þjóðaratkvæði

epa08119799 Campaigners for Scottish independence attend the All Under One Banner (AUOB) march through Glasgow, Scotland, Britain, 11 January 2020. According to reports, several thousand supporters of Scottish independence took part in the protest march.  EPA-EFE/ROBERT PERRY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ný skoðanakönnun leiðir í ljós að skoskir kjósendur skiptast í tvær nánast jafn stórar fylkingar varðandi það hvort efna skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði á næsta ári.

Skoðanakannanafyrirtækið Panelbase grennslaðist í síðustu viku fyrir um hug kjósenda til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir dagblaðið The Sunday Times. Úrtakið var rúmlega þúsund manns.

Könnunin var gerð áður en Nicola Sturgeon fyrsti ráðherra Skotlands lýsti þeim vilja sínum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði 19. október 2023.

Um það bil 44 prósent svarenda kváðust andvígir atkvæðagreiðslu en 43 prósent fylgjandi. Tíundi hver sagðist hvorki með né á móti en þrjú prósent sögðust ekki hafa hugmynd um hver hugur þeirra væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.