Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fákeppni skýri líka hátt verðlag

03.07.2022 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Ríkið getur dregið úr fákeppni með því að afnema gjald sem lagt er á póstsendingar til landsins. Formaður Neytendasamtakanna segir fákeppni ýta undir hærra vöruverð. Vöruverð hér er með því hæsta í ríkjum Evrópusambandsins og EES.

Matur á Íslandi er fjörutíu og tveimur prósentum dýrari en hann er að jafnaði í Evrópusambandslöndunum. Hér eru fatnaður og almenningssamgöngur dýrari en nokkurs staðar í ríkjum Evrópusambandsins og EES.

Þetta leiðir úttekt Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, í ljós. Verðlag hér er í öllum flokkum hærra en meðaltal Eurostat. Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að flutningskostnaður, mikill launakostnaður og smæð markaðarins útskýrir hvers vegna verðlag er hærra hér en í Evrópusambandinu.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir fleira koma til. 

„Það er líka náttúrulega fákeppnin sem ríkið hér á Íslandi. Ísland er tiltölulega lítill markaður og það eru fáir aðilar á flestum sviðum verslunar. Þannig að það kemur líka inn í þessa skýringu,“ segir Breki.

Breki segir að stjórnvöld geti dregið úr fákeppninni með einfaldri aðgerð.

„Það væri t.d. hægt að lyfta endanlega öllum hindrunum í viðskiptum milli landa. Það yrði þannig aukin samkeppni verslunar hér innanlands við verslun erlendis. Ég nefni t.d. endastöðvagjald Póstsins sem er ígildi tolla í rauninni,“ segir Breki.

Neytendasamtökin hafa kvartað undan gjaldinu til Eftirlitsstofnunar EFTA. 

„Þetta er svona frá sex hundruð upp í eitt þúsund krónur u.þ.b. fyrir hverja einustu sendingu sem fólk tekur á móti, sem fólk þarf að greiða Póstinum þegar það tekur við pakka,“ segir Breki.