Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Varanlega sköðuð eftir hoppukastalaslys

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - Áfram Klara , RÚV - - RÚV
Í gær, 1. júlí, var ár liðið frá því að sex ára stúlka slasaðist alvarlega í hoppukastalaslysi á Akureyri. Um 100 börn voru í hoppukastalanum þegar hann tókst á loft. Sjö voru flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri og Klara, sem nú er sex ára, var flutt á Landspítalann og hefur verið í endurhæfingu síðan.

Í færslu sem birt var á styrktarsíðu fyrir Klöru á Facebook í gær segir að Klara taki framförum á hverjum degi. Það sé þó komið í ljós að Klara sé hreyfihömluð og þurfi að berjast við málerfiðleika út ævina. „Ár er er komið ár síðan slysið átti sér stað á Akureyri þar sem fjölskyldan hennar Klöru var að njóta sumarfrísins í blíðunni. Á nokkrum sekúndum breyttist lífið til frambúðar fyrir litlu hetjuna okkar og fjölskylduna hennar. Klara tekst á við lífið með æðruleysi og gleði að vopni.“

Fjölskylda, vinir og kunningjar stofnuðu síðuna Áfram Klara á Facebook í byrjun árs til að styðja við fjölskyldu Klöru. Móðir Klöru stefnir á að klára hálfan Landvætt í ár en í dag tekur hún, ásamt liðinu Áfram Klara, þátt í Þorvaldsdalsskokkinu, sem er 25 kílómetra langt hlaup. Þegar fréttastofa náði tali af einum liðsfélaga í morgun voru þau við það að hefja hlaupið og voru spennt fyrir deginum. 

Málið er í ákærumeðferð

Að sögn Eyþórs Þorbergsson, aðstoðarsaksóknari og staðgengils lögreglustjórans á Norðurlandi eystra er málið farið til ákærusviðs. Lögreglurannsóknin á tildrögum slyssins hefur staðið í ár en hún hófst samstundis. Eyþór segir að óskað verði eftir dómkvöddum matsmanni til að meta hvernig kastalinn var festur við jörðina og öryggi hans tryggt. Hann reiknar með að einhverjir mánuðir muni líða þar til niðurstaða liggur fyrir.