Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þingmenn, ráðherrar og embættismenn hækka í launum

02.07.2022 - 11:52
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Laun þingmanna hækkuðu  um rúmlega 60 þúsund krónur, eða 4,7 prósent í gær. Þingfararkaup er nú rúmlega 1,3 milljónir króna á mánuði. Þingmenn hafa svo möguleika á að drýgja tekjur sínar vegna ýmiss kostnaðar sem tengist starfi þeirra, auk þess sem greitt er fyrir aukalega fyrir formennsku í nefndum.

Tölur yfir launakjör þigmanna, ráðherra og æðstu embættismanna þjóðarinnar hafa verið birtar á vef Stjórnarráðsins. Fyrsta júlí ár hvert uppfærir Fjársýsla ríkisins, samkvæmt lögum, laun þingmanna, ráðherra og embættismanna í samræmi við þróun reglulegra launa hjá hinu opinbera síðasta árið. Þessari skipan var komið á þegar kjararáð var lagt niður árið 2018. 

Eins og fréttastofa greindi frá í gær uppgötvaði Fjársýslan að röng vísitala hafi verið notuð við útreikninga launa alþingismanna, ráðherra og embættismanna síðustu þrjú ár. Uppsöfnuð ofgreidd laun eru alls um 105 milljónir króna. Það eru um 400 þúsund krónur á hvern og einn að meðaltali. 260 fengu ofgreidd laun og verður þeim gert að endurgreiða þau. 

Ráðherrar fá sömuleiðis 4,7 prósenta launahækkun og hækka mánaðarlaun þeirra um nærri hundrað þúsund krónur á mánuði. Ráðherrar hafa verið með rúmlega 2,1 milljón króna í laun á mánuði og hækka þá nú upp í rúmlega 2,2 milljónir króna. Laun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra eru svo tæplega 2,5 milljónir króna á mánuði en voru tæplega 2,4 milljónir króna áður.

Ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri og ríkissaksóknari eru einnig meðal þeirra sem hækka í launum. Mánaðarlaun þeirra eru nú yfir tvær milljónir króna.      

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hækkar einnig um 4,7 prósent í launum. Mánaðarlaun hans eru nú rúmlega 3,6 milljónir króna og hækka um 163 þúsund krónur.