Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Staðfestir eineltismál en ekki tilefni til áminningar

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnars - RÚV
Niðurstaða samskiptaráðgjafa staðfestir einelti af hálfu ferðamálastjóra. Ekki þótti tilefni til að víkja honum úr starfi eða veita áminningu og verður hann að óbreyttu skipaður til næstu fimm ára.

Menningar- og viðskiptaráðuneytið fékk á fyrri hluta ársins þrjú erindi frá  starfsmönnum Ferðamálastofu þar sem fundið var að samskiptum við Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóra. Ráðgjafafyrirtækið Officium var fengið til að gera úttekt á kvörtunum og var það mat ráðgjafa að í einu tilfelli af þessum þremur hafi um einelti verið að ræða.

Í skýrslu Officium eru lagðar fram aðgerðir til úrbóta en ekki er lagt til að ferðamálastjóra verði veitt áminning eða honum vikið úr starfi. Í svari ráðuneytisins til fréttastofu segir að málinu sé ólokið og unnið sé að því að koma tillögum ráðgjafans til framkvæmda.

Skipunartími ferðamálastjóra er til fimm ára og rennur út um áramót. Hefði ráðherra ætlað að auglýsa stöðuna hefði honum borið að tilkynna ferðamálastjóra það í gær. Það var ekki gert og að óbreyttu verður Skarphéðinn Berg skipaður að nýju, til næstu fimm ára.

Fréttastofa óskaði eftir því að fá skýrslu Officium afhenta. Þeirri beiðni var hafnað á þeim grundvelli að hún fjallaði um persónuleg málefni tiltekinna starfsmanna.