Sex sjúklegar íslenskar sumarplötur

Plötuspilari í tösku
 Mynd: hilarycl - Morguefile

Sex sjúklegar íslenskar sumarplötur

02.07.2022 - 09:12

Höfundar

Vefútgáfa Ríkisútvarpsins mælir með eftirfarandi sex íslenskum plötum til þess að hafa í eyrunum í sumar, hvort sem fólk verður á ferð um Frón eða í garðinum að grilla.

Að jólunum frátöldum er sumarið án efa „svipsterkasta“ tímabil hvers árs. Haust, vetur og vor renna iðulega saman í eitt en þegar sumarið gengur í garð að loknu vori og kveður síðan áður en hausta tekur, þá fer enginn varhluta af því. Þess vegna er svo vel hægt að kjarna góða sumarstemningu og hlusta á sumartónlist að sumri, rétt eins og góða jólatónlist um jól.

Sumar plötur eru einfaldlega bara sumarplötur - þær þurfa ekki einu sinni að hafa komið út um sumar. Vefútgáfa Ríkisútvarpsins mælir með eftirfarandi sex íslenskum plötum til þess að hafa í eyrunum í sumar, hvort sem fólk verður á ferð um Frón eða í garðinum að grilla.


Klikkað - Síðan skein sól

Síðan skein sól eða SSSól var ein vinsælasta hljómsveit landsins í upphafi tíunda áratugarins. Platan Klikkað kom út árið 1991 og var sú fjórða sem sveitin sendi frá sér á jafnmörgum árum. Sumrin snúast fyrst og fremst um stemningu og það er nákvæmlega það sem Helgi Björns og félagar í SSSól bjóða upp á hér.

Platan telur tíu lög og skiptast þau til helminga, ýmist upptökur af tónleikum eða í hljóðveri. Lög eins og Húsið og ég (Mér finnst rigningin góð), Geta pabbar ekki grátið? og Blautar varir heyrast fyrst á Klikkað. Öll þessi lög, sem urðu síðan með vinsælustu lögum sveitarinnar þegar fram liðu stundir, eru upptökur af tónleikum. Þannig má heyra áhorfendaskarann taka tryllingskast í upphafi Blautra vara þegar Helgi Björns æpir: „Eru ekki allir hressir? Ú je je je. Og eru ekki allir sexý?"

Þessa plötu verður að hlusta á:

 • Í glampandi sól
 • Hátt stillt
 • Helst með sólgleraugu
 • Þegar þú þarft ekki að mæta neitt snemma morguninn eftir


Hana nú - Vilhjálmur Vilhjálmsson

Villi Vill er þjóðargersemi og það er platan Hana nú líka. Hana nú kom út árið 1977 og er þriðja sólóplata Villa en þar áður hafði hann einnig sungið inn á þrjár plötur með Elly systur sinni, þar af eina jólaplötu árið 1971 sem fylgt hefur þjóðinni síðan eins og farsími í buxnavasa.

Hana nú hefur að geyma perlur á borð við Lítill drengur, Söknuður og Þú átt mig ein. Sumarlegasta lagið á plötunni er þó án efa Jamaica. Að hlusta á Hana nú er eins og að stíga inn í tímavél, tímavél sem tekur mann bæði til ársins 1977 og allra annarra ára eftir það, þar sem lögin á plötunni eru eins sígild og þau gerast. Flutningur Villa er síðan auðvitað öllum kunnur: Hvorki fyrr né síðar hefur íslenskur texti verið sunginn eins skýrt og fagurt. 

Þessa plötu verður að hlusta á:

 • Með séniver í kók við hendina
 • Á dúkalögðu gólfi
 • Í góðum græjum
 • Á meðan þú spilar Olsen


Tímarnir okkar - Sprengjuhöllin

Sprengjuhöllin ber nafn með rentu. Sveitin sprakk hreinlega fram á sjónarsviðið skömmu fyrir bankahrun og naut gríðarlegra vinsælda áður en hún lagði upp laupa aðeins örfáum árum eftir stofnun hennar. Plöturnar urðu tvær, fyrst Tímarnir okkar (2007) sem við mælum hér með og síðan Bestu kveðjur (2008). Er þá frátalin EP-platan Sprengjuhöllin sem taldi aðeins fjögur lög, þar af tvö sem birtust einnig á næstu plötu.

Á Tímarnir okkar má finna samnefnt lag sem varð sérstaklega vinsælt, Keyrum yfir Ísland, upphafslag plötunnar sem er sérstaklega sumarlegt, og Verum í sambandi, þjóðlagapopp af Guðs náð. Það verður vart við ákveðinn gassagang á plötunni sem er gerir hana sérstaklega sumarlega og fjöruga þótt hún hafi komið út að hausti. 

Þessa plötu verður að hlusta á:

 • Í gegnum AUX-snúru í bíl
 • Með 2L flösku af appelsíni einhvers staðar nálægt
 • Á leiðinni á fótboltamót með krakkana
 • Innan um ástfangin pör


GDRN - GDRN

Guðrún Ýr Eyfjörð er ein besta tónlistarkona á Íslandi um þessar mundir, svo einfalt er það. Seinni plata hennar heitir eftir listamannsnafni hennar, GDRN, og hún er sannkölluð sumarplata. Platan kom út í febrúar fyrir tveimur árum og ómaði í útvarpinu og heyrnartólum landsmanna allt sumarið á eftir. 

Tónsmíðin á plötunni er því sem næst á heimsmælikvarða, lögin eru róleg en á sama tíma grípandi. Söngur GDRN er svo einstakur, þannig að úr verður fyrsta flokks popp sem mark er takandi á. Lög á borð við Vorið, Hugarró og Áður en dagur rís eru meðal vinsælustu laga GDRN og er þau öll að finna á plötunni. Veit Gunni Þórðar af þessu eða?

Þessa plötu verður að hlusta á:

 • Með dýran kaffibolla við hönd
 • Í ógeðslega töff fötum
 • Á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll
 • Þegar þú ert að labba heim úr sundi


Mávastellið - Grýlurnar

Grýlurnar voru frumkvöðlar í íslenskri músík og Mávastell þeirra á að vera á heimsminjaskrá. Platan kom út árið 1983 og hristi upp í öllu sem gat hreyfst. Platan þótti framúrstefnuleg þegar hún kom út og titlarnir á plötunni segja sína sögu um það. Mávastellið er eina plata Grýlanna en hún telur líka 16 lög og er því mikið stórvirki. Upphafslagið, Sísí, er einstakt. Þvílík opnun!

Mávastellið er þó sennilega ekki allra, platan er jafnóaðgengileg og hún er mögnuð. Þú hlustar ekki á Mávastellið í gegn á leiðinni í útilegu í Húsafelli, þú verður að sitja við og spá aðeins í því sem þú ert að hlusta á. Það er því tilvalið að hlusta á plötuna síðsumars, þegar fólk er búið að heyra Lífið er yndislegt hundrað sinnum og vill fá aðeins harðari pakka. 

Þessa plötu verður að hlusta á:

 • Í nálægð við kókflösku sem búið er að aska ofan í
 • Í gegnum snúruheyrnartól
 • Þegar allir í bústaðnum eru sofnaðir nema þú
 • Sveimandi um á Suzuki


Komu engin skip í dag - Kristín Á. Ólafsdóttir

Kristín Á. Ólafsdóttir hóf feril sinn sem þjóðlagasöngkona og varð síðar pólitíkus, sem þarf ekki að koma á óvart miðað við skilaboðin sem hún sendi í lögum sínum. Komu engin skip í dag er hennar fyrsta plata og á henni eru aðeins fjögur lög, tvö úr smiðju Magnúsar Eiríkssonar. Platan kom út árið 1968 og er í einu orði sagt dáleiðandi, eins konar sírenusöngur hausts. Það er enda tilvalið að enda þessa upptalningu á plötu sem hefur haustbrag yfir sér til þess að fólk geti náð sér niður eftir gírun sumarsins. Ég spilaði þessa plötu heima um daginn og laufin á pottablómunum mínum gulnuðu. 

Komu engin skip í dag heitir fyrsta lagið á plötunni og er um sjávarháska. Lagið inniheldur ógleymanlegar ljóðlínur Magnúsar Eiríkssonar: „Guð minn góður, komu engin skip í dag?“ Síðan taka við lög sem heita Flóttamaðurinn, Örlög mín og Mamma ætlar að sofna, sem gefa fyrsta laginu ekkert eftir.

Það er þungt í þessu pundið og þessi plata rífur mann strax niður á jörðina ef maður var farinn að gleyma sér í gáska sumarsins. Plötuumslagið er síðan virðulegt en skerandi í senn, sægrænt með svarthvítri mynd af Kristínu í skrautlegum ramma. 

Þessa plötu verður að hlusta á:

 • Í rúllukragapeysu
 • Þegar hitinn fer ekki lengur í tveggja stafa tölur
 • Sitjandi á tröppum Norræna hússins
 • Á leið heim úr eftirpartýi

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sögur til að lesa í sveitinni í sumar