Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Margar góðar ástæður fyrir því að hætta að slá gras

02.07.2022 - 21:03
Mynd: Kristján Ingvarsson / RÚV
Margvíslegur ávinningur fæst af að hætta að slá gras. Það er jákvætt fyrir pöddur og fugla og dregur úr olíunotkun. Vaxandi hreyfing er fyrir villigörðum. Landgræðslustjóri hvetur sveitarfélög til að gróðursetja rifsberjarunna á almenningssvæðum í staðinn fyrir gras. 

Venjan er að slá allt gras jafnóðum og það sprettur upp og helst alveg niður í rót. En nú er vaxandi hreyfing fyrir því að leyfa náttúrunni að njóta sín og leyfa blómunum að spretta upp eins og þau koma fyrir. 

Það eru fimm ár síðan grasið í garði Bjargar J. Sveinsdóttur hefur verið slegið. 

„Villigarðar eru náttúrulega fyrir okkur flest óræktargarðar. Ég hef aldrei verið hrifin af því að taka arfa. Þetta er það sem gerist þegar náttúran fær að ráða, það er ýmislegt sem blómstrar af ýmsu tagi,“ segir Björg.

Landgræðslustjóra líst vel á villigarðahreyfinguna.

„Við ættum að endurhugsa þetta og horfa á það að við viljum hafa fjölbreytileikann í kringum okkur. Við þurfum ekki að gera hlutina eins og við gerðum fyrir fimmtíu árum,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.

Hvað hefur sprottið upp sem þú vissir ekki að væri hérna?

„Já, það er sem sagt skriðdepla sem var lítil þúfa sem hefur ákveðið að leggja undir sig blettinn. Síðan er það að þetta ræktargras sem þurfti alltaf að slá, það dregur úr því þannig að það verður minni ástæða til að slá,“ segir Björg.

Svo ertu hérna mér appelsínugul blóm?

„Já, ég held að þetta sé roðafífill sem vonandi er að fara að dansa upp brekkuna,“ segir Björg.

Þetta er eitthvað sem þú sáðir ekki á sínum tíma?

„Nei, þetta bara gerist,“ segir Björg og bætir við að blómfræ hafi líklega borist með vindi og sáð sér í garðinn hennar.

Björg notar ekki eitur í garðinum heldur plokka þau hjónin lirfurnar af laufblöðum trjánna.  

„Ég er ekki hlynntur því að við notum eitur til þess að drepa þetta því að ég segi enn og aftur, við erum að eitra fyrir fuglunum, við erum að eitra fyrir gagnlegum skordýrum,“ segir Árni.

Árni er með hvatningu til sveitarfélaga.

„Síðan líka spurning um sveitarfélögin sem mörg hver eru að nota tugi, hundruð milljóna í  að slá bletti. Það mætti kannski minnka það. Við getum þá minnkað olíunotkun,“ segir Árni.

Hann hvetur sveitarfélög til að draga úr grasslætti og koma upp villisvæðum

„Af hverju ekki að setja þar rifs eða einhverja berjarunna sem fólk gæti þá, þeir sem ekki hafa garð, farið og sótt sér ber,“ segir Árni.