Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Launa- og flutningskostnaður skýri hátt vöruverð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flutningskostnaður, mikill launakostnaður og smæð markaðarins útskýrir hvers vegna verðlag er hærra hér en í Evrópusambandinu. Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. 

Matur á Íslandi er fjörutíu og tveimur prósentum dýrari en hann er að jafnaði í Evrópusambandslöndunum. Hér eru fatnaður og almenningssamgöngur dýrari en nokkurs staðar í ríkjum Evrópusambandsins og EES. Þetta leiðir úttekt Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, í ljós. Verðlag hér er í öllum flokkum hærra en meðaltal Eurostat.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir margt skýra verðlag hér. 

„Við náttúrulega búum við þær aðstæður búandi á eyju að hér er flutningskostnaður alltaf meiri. Að því er varðar matvöru þá er það náttúrulega vitað að sú vernd sem innlendur landbúnaður býr hún hefur sjálfkrafa áhrif til hækkunar á verði á matvöru. Þá líka er það smæð markaðarins. Þetta er agnarsmár markaður hérna langt frá öðrum hlutum Evrópu. Það líka hefur áhrif á þetta. Svo má ekki gleyma því að hér er kaupmáttur í hæstu hæðum og verðlag vöru og þjónustu tekur mið af kaupmætti. Það gerist hvar sem er,“ segir Andrés.

Þannig að það er ekki um það að ræða að hérna sé einhvern veginn verið að fara verr með neytendur en í öðrum ríkjum í Evrópu?

„Ég get svo sem ekki lagt mat á það. Við drögum bara fram þau atriði sem skipta máli og eru til skýringar á þeirri spurningu sem þú berð fram. Það er náttúrulega eins og við höfum margoft sagt, við getum ekki og megum ekki skipta okkur af því hvernig fyrirtækin haga verðákvörðunum sínum eða verðlagningu á vöru og þjónustu,“ segir Andrés.