Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Innflytjendum verður gert skylt að læra færeysku

Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Þeir útlendingar sem hyggjast sækja um varanlegt dvalarleyfi í Færeyjum þurfa að ná ákveðinni færni í tungumálinu áður en það fæst. Skilyrðin taka þó ekki til fólks ættuðu frá Norðurlöndum.

Færeyskir stjórnmálamenn hafa lagt ríka áherslu á að útlendingar sem vilja setjast að á eyjunum kunni færeysku en frumvarp um aðlögun hefur verið í smiðum nokkra hríð.

Magnus Rasmussen, umhverfis-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer einnig með útlendingamál staðfestir í samtali við færeyska ríkisútvarpið að ákvæði um færni í færeysku verði í frumvarpi sem lagt verður fyrir lögþingið á haustdögum. 

Rasmussen segir þekkingu á menningu og máli Færeyja brýna fyrir þau sem hyggjast setjast að og aðlagast samfélaginu og ekki síður svo þeim nýtist þekking sín og verkkunnátta sem best í nýju landi. 

Rasmussen segir að þegar útlendingalögum var breytt árið 2018 hafi þingmenn verið sammála um að krafa um færeyskukunnáttu yrði að vera meðal ákvæða nýrra laga um aðlögun.

Ráðherrann segir þó að ekki verði ætlast til þeirrar kunnáttu af þeim sem koma tímabundið til starfa í landinu, né þeim sem fædd eru og uppalin á hinum Norðurlöndunum.