Góð aðsókn að tjaldsvæðum landsins

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Góð aðsókn að tjaldsvæðum landsins

02.07.2022 - 14:33

Höfundar

Erlendir ferðamenn hafa verið áberandi á tjaldsvæðum landsins það sem af er sumri en Íslendingum fjölgar í júlí og í ágúst.

Góða veðrið í fyrra togaði ferðaþyrsta Íslendinga til Austurlands, enda var það met sumar hjá okkur, segir Heiður Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Austurfarar sem rekur tjaldsvæðin á Egilsstöðum.  „Aðsóknin í sumar hefur verið mjög góð en ekki jafn góð og í fyrra.  Þá voru Íslendingar í miklum meirihluta en erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mikið í sumar."  Hún segir að sama fólkið komi ár eftir ár enda er aðstaðan til að taka á móti gestum til mikillar fyrirmyndar.

„Sumarið hefur verið mjög gott hjá okkur þrátt fyrir að við séum enn að bíða eftir því að það komi", segir Birna Mjöll Aðalsteinsdóttir landeigandi Breiðavíkur við Látrabjarg. Um 180 manns eru á tjaldsvæðinu um helgina sem er mesti fjöldi það sem af er þessu ári. Hún segir að næstu vikur lofi góðu en þegar nær dregur september minnki aðsóknin.  Rúmlega 100 gestir eru á tjaldsvæðinu á Blönduósi. Þar hefur aðsóknin verði meiri en í fyrra.

Hrafnhildur Ævarsdóttir þjóðgarðsvörður í Skaftafelli  lætur vel af aðsókn.  Miðað við gestafjöldann í sumar má reikna með miklum fjölda á háannatímanum, í júlí og í ágúst.

Tjaldsvæðið við Hamra  í Kjarnaskógi á Akureyri er eitt stærsta tjaldsvæði landsins, þar er hægt að taka á móti allt að 2500 manns.  Ásgeir Hreiðarsson framkvæmdastjóri segir að um 1300 manns hafi gist þar um helgina.  Hann segir að aðeins færri hafi gist á tjaldsvæðunum í ár miðað við árið í fyrra. "Veðrið hefur ekki verið að leika við okkur.  Erlendir ferðamenn voru í meirihluta í júní en næstu vikurnar eigum við eftir að sjá fleiri Íslendinga."