Bandarísk flugfélög búa sig undir miklar annir í sumar og hefur flugfélagið Delta gripið til þess ráðs að bjóða farþegum að breyta flugbókunum án endurgjalds í takmarkaðan tíma.
Fimm flugfélög standa í kjaraviðræðum
Fjöldi flugfélaga hefur átt erfitt með að bregðast við hratt vaxandi álagi í ferðaþjónustu eftir heimsfaraldurinn. Í Evrópu flækir það stöðuna enn frekar að stéttarfélög starfsfólks flugfélaga stendur í erfiðum kjaraviðræðum og þúsundir starfsmanna hafa boðað verkföll.
Verkfall hjá SAS á miðnætti annað kvöld
Í samantekt sænska ríkisútvarpsins er greint frá því að flugmenn Skandinavíska flugfélagsins SAS hafi boðað verkfall á miðnætti annað kvöld ef ekki tekst að semja um kjör fyrir þann tíma.
Starfsfólk Ryanair í verkfall um helgina
Töluverð röskun hefur orðið á starfsemi breska flugfélagsins Ryanair. Hluti starfsfólks þess í Belgíu, Frakklandi, Spáni og Ítalíu lagði niður störf 24. júní. Enn fleiri fara líklega í verkfall um helgina.
Níu daga verkfall hjá Easyjet
Um 450 starfsmenn Easyjet hafa jafnframt boðað verkfall í níu daga í júlí, sem raskar flugferðum til og frá Barcelona, Mallorca og Malaga á Spáni.
Starfsfólk British Airways samþykkir verkfallsboðun
Starfsmenn British Airways á Heathrow flugvelli í London samþykktu verkfallsboðun í gær eftir að fyrirtækið neitaði að afturkalla tíu prósenta launalækkun sem tók gildi í heimsfaraldrinum. Verkfall hefst í júlí og gæti, samkvæmt breska ríkisútvarpinu, varað fram í ágúst.
Samningaviðræður hjá Lufthansa
Stjórn þýska flugfélagsins Lufthansa hefur einnig staðið í kjaraviðræðum við starfsfólk sitt sem hyggst leggja niður störf fái það ekki í gegn launahækkun. Verkfall hefur þó ekki verið boðað formlega. Lufthansa hefur þegar aflýst yfir 3.100 flugferðum í sumar, meðal annars vegna skorts á starfsfólki.