Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Norræna biskupamótið haldið á Akureyri

01.07.2022 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Amanda Guðrún Bjarnadóttir
Nú í vikunni fór Norræna biskupamótið fram á Akureyri, þar sem fjörutíu og fimm biskupar af Norðurlöndunum komu saman, fræddust og deildu reynslu sinni. Biskup Íslands segir mót á borð við þetta mikilvægt fyrir starf kirkjunnar.

Kirkjan í breyttum heimi

Norræna biskupamótið er haldið á þriggja ára fresti, og til skiptis á Norðurlöndunum fimm. Í ár var röðin komin að Íslandi að halda mótið og fór það fram á Akureyri. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands var meðal skipuleggjenda. „Það er alltaf eitthvað þema sem að við leggjum út á og höfum fyrirlestra um og kirkjan í breyttum heimi var svona yfirskriftin núna vegna þess að það hefur náttúrulega margt breyst,“ segir Agnes.

Finna saman leiðir til að bregðast við þeim breytingum sem eru að verða

Þemað tók til margra þátta, til dæmis loftslagsbreytinga, lýðræðis, heimsfaraldursins og stríðs í Evrópu. Agnes segir mikilvægt að biskupar á Norðurlöndunum hittist reglulega, „af því við höfum mörg sameiginleg mál og flest málin sem að við erum að glíma við eru þau sömu á öllum stöðum þannig við þurfum að styrkja okkur og finna leiðir saman til þess að bregðast við ýmsum breytingum sem eru að verða.“

Mikilvægt að hittast bæði vegna persónulegra ástæðna og út frá sjónarhóli kirkjunnar

Antje Jackelén, erkibiskup í Svíþjóð, tekur undir með Agnesi. „Það er mikilvægt að hittast af persónulegum ástæðum. Biskupar þurfa að hittast og skiptast á reynslu. Kirkjur okkar eiga margt sameiginlegt svo við þekkjum starfsemi hver annars en þær eru líka ólíkar á ákveðinn hátt sem gerir mótið hvetjandi og spennandi. Út frá sjónarhóli kirkjunnar er mótið líka mikilvægt því við á Norðurlöndunum þurfum að vinna saman til þess að efla aðgerðir okkar og vaxa saman andlega,“ segir Antje.