Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísland dýrast í Evrópu í fatnaði og samgöngum

01.07.2022 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Matur á Íslandi er 42% dýrari hér á landi en að meðaltali í Evrópusambandslöndunum. Hér á landi er fatnaður og almenningssamgöngur dýrari en nokkurs staðar annars staðar í Evrópusambandinu. Skór og föt eru 35% dýrari hér og almenningssamgöngur 85% dýrari.

Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, birtir á vef sínum tölur um verð í nokkrum flokkum og eftir löndum. Matvara er tæplega 42% dýrari hér á landi en að jafnaði í Evrópusambandinu. Maturinn er næst dýrastur í Noregi og dýrastur í Sviss. Hvergi í Evrópusambands- eða EES-ríkjum er dýrara að kaupa föt og skó en á Íslandi. Hér eru klæði og skæði 35% dýrara en meðaltalið í Evrópu. 

35% dýrara hér að fara út að borða eða gista á hóteli

Viðskipti við íslensk hótel og veitingastaði eru 35% dýrari hér en hið evrópska meðaltal. Aftur eru það Noregur og Sviss sem toppa íslenskt verðlag.

Húsaleiga, viðhald húsnæðis, vatn, rafmagn og húshitun er hér 52% dýrari en að jafnaði í Evrópusambandinu. Húsgögn og gólfefni eru næstdýrust á Íslandi og 20% dýrari en í Evrópusambandinu. 

En lítum á samgöngur. Almenningssamgöngur eru hér þær dýrustu í Evrópu eða 86% dýrari en meðaltalið. Þá er átt við samgöngur á landi, í lofti og á sjó eða vötnum. 

Bílar, mótorhjól og reiðhjól eru hér 16% dýrari en að jafnaði í Evrópusambandinu. Þá eru fjarskipti hér 52% dýrari en hið evrópska meðaltal.

Afþreying 48% dýrari hér

Kaup á því sem telst til afþreyingar eða skemmtunar er 48% dýrara hér en að jafnaði í sambandinu. Áfengi og tóbak er hér næstdýrast í Evrópu- og EES-ríkjunum. Það er meira en tvöfalt dýrara en evrópskt meðaltal eða 214% dýrara.

Verðlag á Íslandi er ekki undir meðaltali Eurostat í neinum flokkum.