Fyrir viku lögðu þeir Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson fram kæru gegn Vítalíu og Arnari fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þau eru kærð fyrir að hafa farið fram á samtals 150 milljónir króna frá mönnunum þremur gegn því að Vítalía félli frá því að kæra þá fyrir kynferðisbrot. Slík kæra hefur ekki verið lögð fram eftir þvi sem fréttastofa kemst næst.
Málið komst í hámæli í janúar þegar Vítalía sagði frá því í þættinum Eigin konur að mennirnir hefðu brotið á henni kynferðislega í sumarbústað og í framhaldinu létu þeir af störfum sínum.
Þrír menn hafa kært þig og Vítalíu Lazarevu fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs. Hvernig svarar þú því? „Þeir hafa sjálfir sagt að þeim hafi verið nauðugur einn kostur svo að öll gögn kæmu fram í málinu. Það er líklega aðalástæðan fyrir þessari kæru á hendur mér. Ég hef ekki hótað né kúgað neinn, hvorki í þessu máli né öðru.“
Kom það þér á óvart að vera kærður á þennan hátt? „Já, mjög.“
Þú sendir frá þér yfirlýsingu fyrr í vikunni þar sem þú vísar þessum aðdróttunum á bug og sagðir það vera tilraun til að afvegaleiða umræðuna og draga úr trúverðugleika þínum sem lykilvitni í málinu - viltu skýra þetta nánar? „Ég hef alltaf sagst myndu bera vitni. Það má ætla að þeir hafi ekki verið vissir um hversu hliðhollur ég yrði þeirra málstað og þgí gripið til þess ráðs að kæra mig. Ég hef sagst standa með sannleikanum fyrir dómi og mun einfaldlega segja frá hlutunum eins og ég sá og upplifði þá.“
- Sjá einnig: Arnar Grant vísar ásökunum um fjárkúgun á bug
- Sjá einnig.: Kaupfélag Skagfirðinga hættir samstarfi við Arnar Grant
Kannast þú við að viðræður hafi átt sér stað um að þessir þrír menn greiddu Vítalíu og/eða þér fé? „Það var að frumkvæði þeirra að ná sátt í málinu. Ég fór með Vítalíu á tvo fundi með lögmanni sem sá um einhverskonar sátt fyrir hennar hönd. Það var rætt um allskonar fjárhæðir í einkaskilaboðum fram og til baka en ég veit ekki hvort það hafi nokkurn tímann verið farið fram á þessar fjárhæðir við þessa menn.“
Með „þessar fjárhæðir“ - áttu við þessar 150 miljónir sem nú er kært fyrir? „Já.“
Vítalía sagði í viðtali í janúar að þessir þrír menn sem nú hafa kært ykkur hefðu brotið kynferðislega á sér í sumarbústaðaferð í Skorradal í október 2020. Þú varst í þessari ferð, hvernig upplifðir þú þetta? „Við vorum ekki par, ég þekkti hana mjög lítið þarna. Það var mikil ölvun í gangi, ég er ekki sérfræðingur í svona málum og get ekki sagt nákvæmlega til um hvað er brot og hvað er ekki brot. En vissulega voru menn óviðeigandi og gengu allt of langt í þeim efnum.“
Arnar segir að öll sem voru í bústaðnum hafi verið nakin í heitum potti. Allir hafi snert alla. Honum hafi ofboðið, farið upp úr og boðið Vítalíu að fara með sér. Eftir það hafi nokkrir úr hópnum áreitt Vítalíu, einn hafi sett höndina á milli fóta hennar í hennar óþökk.
Í áðurnefndu viðtali sagði Vítalía að Arnar hefði keypt þögn annars manns með því að láta Vítalíu veita honum kynferðislegan greiða. Síðar kom í ljós að um var að ræða Loga Bergmann fjölmiðlamann. „Ég hef aldrei boðið neinum að snerta Vítalíu,“ segir Arnar.
Sagði hún þá ekki rétt frá í þessu viðtali? „Hún sagði ekki rétt frá því, nei.“
En það hefur haft heilmiklar afleiðingar fyrir þann sem átti í hlut... „Já.“Þú ert að segja að þarna hafi ekki verið sagt rétt frá? „Já.“
Þetta mál hefur verið til umræðu og umfjöllunar í hálft ár og margir hafa tjáð sig um það. Þú hefur aftur á móti ekki stigið fram og greint frá þinni hlið fyrr en núna - hvers vegna? „Ég skammaðist mín. Ég gat ekki farið að blaðra í viðtölum. Það var svo margt sem var haldið fram um mig,“ segir Arnar.
„Hvar átti ég að byrja til að vinda ofan af þessu? Skaðinn var skeður og ég vildi bara hlífa fjölskyldunni og öðrum. Ég var hræddur við enn meira skítkast, ásakanirnar voru svo þungar að ég átti ekki von á að mér yrði trúað. Andrúmsloftið í samfélaginu var ekki vinveitt og ég vildi bara ekki fara í einhvern leðjuslag.“